Á undanförnum árum hefur hlutfall útborgaðra launa heimilis sem varið til greiðslu fasteignaláns farið hækkandi. Í dag er hlutfallið að jafnaði 20-21 prósent en var um 18 prósent stuttu eftir efnahagshrunið. Hlutfallið er í takt við árin 2000 til 2004. Þetta kemur fram í nýju Efnahagsyfirliti VR sem kom út í dag. „Það er þó áhyggjuefni að vísbendingar eru um að hlutfall útborgaðra launa sem varið er í greiðslu fasteignaláns fer hækkandi. Þetta snertir helst þau heimili sem eru að kaupa sér sína fyrstu fasteign eða stækka við sig,“ segir í yfirlitinu.
Eignir eldra fólks hafa aukist mikið umfram eignastöðu þeirra yngri, sé horft sérstaklega til áranna 2007 til 2015. Séu skuldirnar teknar með í reikninginn kemur fram svipuð mynd, segir í yfirlitinu. „Til að mynda hafa eignir 67 ára og eldri aukist um tæp 58 prósent umfram eignir 30-34 ára á tímabilinu 2007 til 2015. Ekki er rétt að horfa aðeins á eignir. Sé litið til skuldsetningar fæst nokkuð svipuð mynd. Meðalupphæð skulda hefur hækkað meira meðal eldri aldurshópanna en þeirra yngri. Skuldir 67 ára og eldri hafa einnig hækkað umtalsvert meira en yngri aldurshópanna. Þetta er möguleg birtingarmynd þess hve erfitt það hefur verið fyrir yngri aldurshópana að eignast fyrstu fasteign árin eftir hrun,“ segir í yfirlitinu.
Í takt við Norðurlöndin
Neyslumynstur, það er hversu stóru hlutfalli útgjalda heimils er varið í tiltekna vöru eða þjónustu, er svipað því sem þekkist á hinum Norðurlöndunum. Hlutfall útgjalda vegna húsnæðis, hita og rafmagns er lægra en í Danmörku en hærra en í Svíþjóð, Noregi og Finnlandi.
Krónan styrkist en núna er þetta öðruvísi
Undanfarin tvö ár hefur gengi krónunnar hefur verið í miklum styrkingarham. Ástæðan er mikil fjölgun ferðamanna. „Í umræðunni hefur meðal annars verið talað um annað hrun sökum styrkingarinnar. Það er þó ekki hægt að bera þessa gengisstyrkingu núna saman við gengisstyrkinguna árin fyrir hrun,“ segir í yfirlitinu.
Stærsti áhrifavaldur styrkingarinn á síðasta ári var mikil gjaldeyrisinnflæði frá ferðamönnum, en algjört metár var í ferðaþjónustunni. Um 1,8 milljónir ferðamanna komu til landsins í samanburði við 1,2 milljónir árið 2015. Á þessu ári stefnir í enn meiri vöxt, samkvæmt flestum spám. Sé miðað við meðaltalið þá styrktist gengi krónunnar um 18,4 prósent gagnvart helstu viðskiptamyntum á síðasta ári, en í byrjun þessa árs hefur það veikst lítið eitt.