Fanney Birna Jónsdóttir, fyrrverandi aðstoðarritstjóri Fréttablaðsins, mun stýra pólitíska umræðuþættinum Silfrinu á RÚV ásamt Agli Helgasyni. Frá þessu hefur verið formlega gengið. Þetta staðfesti Fanney Birna í hlaðvarpsþættinum Hisminu hér á Kjarnanum í gær, þar sem hún var gestur. „Við ætlum að endurvekja Silfrið[...]þetta verður ekki lengur Silfrið hans [Egils]. Við deilum þessu.“
Fanney Birna segir að þetta verði mikið starf. Ekki liggur fyrir enn hvort þau Egill verði saman í setti þáttarins eða hvort þau muni skipta þáttunum á milli sín. Það muni koma í ljós þegar framkvæmdin er búin að gerjast meir.
Silfur Egils var fyrst á dagskrá á Skjá Einum um aldarmótin. Þaðan færði þátturinn sig yfir á Stöð 2 og síðar á RÚV. Silfur Egils var tekið af dagskrá RÚV árið 2013. Þá sagði Egill, sem hafði stýrt þáttunum einn frá upphafi, það þetta væri orðið svolítið endurtekningarsamt. Í samtali við Vísi sagði hann: „ Á endanum verður maður orðinn gamall karl talandi við fólk sem er miklu yngra en maður sjálfur og segjandi sömu hlutina aftur og aftur. Þetta er allt gert í góðu samkomulagi og að mínu frumkvæði frekar en hitt.“
Vísir greindi frá því í desember að til stæði að endurvekja Silfrið. Þá voru nöfn Egils og Fanneyjar Birnu nefnd en Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps, sagði að ekki væri frágengið hverjir yrðu stjórnendur þáttarins. Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er það nýfrágengið. Silfrið verður á dagskrá á sunnudögum líkt og það var hér á árum áður og til stendur að fyrsti þáttur fari í loftið um næstu mánaðamót. Fanney Birna veður fyrsti meðstjórnandinn Egils að þættinum.