Páll Magnússon, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, segist líta svo á að Bjarni Benediktsson, formaður flokksins, hafi gert mistök í ráðherravali sínu. Hann hljóti sem skynsamur maður að leiðrétta þau.
Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í morgun. Þar sagði Páll að hann hefði ekki getað greitt atkvæði með tillögu Bjarna um ráðherraskipan Sjálfstæðisflokksins, en flokkurinn fékk sex ráðherraembætti. Páll sagði í fyrsta lagi að tillagan hafi gegnið á skjön við það lýðræðislega umboð sem þingmenn hefðu áunnið sér, fyrst í prófkjöri og svo kosningum. Í öðru lagi sagði hann að í tillögunni hefði falist lítilsvirðing á kjósendum Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, sem ég annað höfuðvígi flokksins þar sem stærsti sigurinn hafi unnist í kosningunum í haust.
Páll fékk ekki ráðherrastól, og enginn þingmaður úr Suðurkjördæmi er ráðherra. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var í fjórða sæti flokksins, verður forseti Alþingis.
„Ég lít á þetta sem mistök. Formaður flokksins er skynsamur maður og leiðréttir þau ábyggilega við fyrsta tækifæri. Þetta snýst ekki um mig sem persónu. En til að fólk fari ekki að gera sér óþarfa grillur að þá styð ég formann Sjálfstæðisflokksins. Ég styð ríkisstjórnina sem hann veitir forystu og ég styð ráðherra flokksins í störfum þeirra.“
Páll var spurður hvernig Bjarni gæti leiðrétt þessi mistök, og sagði það vera hægt með því að forystumaður í sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins eigi að sitja við ríkisstjórnarborð þegar Sjálfstæðisflokkurinn er í ríkisstjórn. „Þetta er einfalt mál.“
Hann á samt ekki frekar von á því að þessu verði breytt, segir hann, en þetta sé afstaða hans í þessu tiltekna máli. Hann á von á því að honum verði boðin formennska í einhverri fastanefnd, en það hefur ekki verið rætt við hann enn.