Stefnt er að því að opna bókhald ráðuneyta og stofnanna ríkisins í mars. Umfang bókhaldsins er um 50 milljarðar króna af reikningum sem birtir verða á ársgrunni og það verður birt á netinu. Þetta kom fram í ávarpi Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og viðskiptaráðherra, á Skattadegi Deloitte sem fram fór í dag. Mbl.is greinir frá.
Kjarninn greindi frá því á þriðjudag að unnið væri að því innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins að opna bókhald ríkisins upp á gátt. Þegar það hefur verið gert verður m.a. hægt að fletta upp einstökum kostnaðarreikningum ráðuneyta. Þetta kom fram í framsögu Benedikts á opnum fundi sem þingflokkur Viðreisnar hélt með flokksmönnum sínum á þriðjudag. Þar nefndi Benedikt dæmi að ef keyptur er þjónusta leigubíls eða ný ljósritunarvél þá sé hægt að nálgast upplýsingar um hvað hafi verið nákvæmlega verið keypt, hver keypti, til hvers og hvar ljósritunarvélin sé notuð.
Benedikt sagði einnig á fundinum með flokksmönnum sínum að hann ætlaði að opna á allar upplýsingar um hvernig skipað yrði í hin ýmsu ráð og nefndir. Þá yrði eigendastefna ríkisins skýr og opinber. Til dæmis yrði söluferlið á bönkunum sem ríkið á opið frá upphafi, gerð í góðri sátt flokka á þingi og í góðri sátt við þjóðina. Benedikt sagði það ekki skipta höfuðmáli þótt það myndi taka tíu ár að selja þá þannig að það yrði gert almennilega, en að hann væri þeirrar skoðunar að það væri betra fyrir þjóðina að skulda minna og eiga færri banka.