„Mér varð hugsað til þess hvort maður væri ekki lentur í vitlausu leikriti,“ skrifar Benedikt Jóhannesson, fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar, í pistli á vefsíðuna heimur.is. Í pistlinum rekur Benedikt hugleiðingar sínar í kringum formlegar athafnir í fæðingu ríkisstjórnarinnar sem hann myndaði með Bjarna Benediktssyni og Óttari Proppé.
„Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti,“ skrifar Benedikt um upphaf ríkisráðsfundarins þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, stofnaði ráðuneyti Bjarna Benediktssonar 11. janúar síðastliðinn. „Þá hafði hvorugur okkar nokkru sinni boðið sig fram til opinbers embættis. Svona er þetta líf skrítið.“
„Það sama og síðast og þar áður.“
Áður en blaðamannafundur þeirra Benedikts, Bjarna og Óttars hófst í Gerðarsafni í Kópavogi fengu verðandi leiðtogar nýrrar ríkisstjórnar farða fyrir kvikmyndavélarnar í einum sal safnsins. Benedikt segir að þar hafi verið allt á rúi og stúi og að Svanhildur Hólm, aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar til nokkurra ára, hafi stranglega bannað þeim að veita fjölmiðlum viðtöl í þessum sal. „Það fannst mér skiljanlegt, allt á rúi og stúi og ekki skemmtilegt viðtalslókal,“ skrifar Benedikt.
Og það mátti alls ekki taka af þeim myndir við veggina í salnum. Þar var búið að hengja upp listaverk fyrir sýningu einhvers konar og á einum veggnum var „sérkennilegt verk“, skrifar Benedikt. „Það var röð af ljósmyndum sem allar voru eins. Tvær raðir reyndar. Á myndunum voru stafir, einn á hverri. Textinn var eitthvað á þessa leið:
„Það sama og síðast og þar áður.“
Ég varð að viðurkenna að þetta hefði ekki verið heppilegur bakgrunnur fyrir blaðamannafund nýrrar ríkisstjórnar.“
Þorði ekkert að segja
Ríkisráðsfundir eru alltaf mjög formlegir viðburðir og það sem fram fer á þeim fundum eru iðulega trúnaðarmál þeirra sem fundinn sitja. Fundurinn 11. janúar var fyrsti ríkisráðsfundur Benedikts sem segist hafa fundist það „skrítið“ að þurfa að skrifa undir yfirlýsingu um að hann myndi gegna embætti fjármálaráðherra með „guðs hjálp og hinnar helgu bókar“. „[E]n þetta truflaði mig svosem ekkert.“
Sem fjármálaráðherra hefur Benedikt lyklana að ríkiskassanum (í óeiginlegri merkingu), eins og hann benti sjálfur á þegar hann tók við lyklunum að skrifstofu fjármálaráðherra úr hendi Bjarna Benediktssonar. Í pistli sínum viðurkennir Benedikt að hafa velt fyrir sér hvort það væri ekki kominn tími á að lappa aðeins upp á gamla, lasna ríkisstjórnarborðið. „Er ekki rétt að forsetaembættið fái aukafjárveitingu til þess að lappa upp á þetta borðskrifli? hugsaði ég, en þorði auðvitað ekkert að segja.“
Benedikt þurfti annars ekkert að segja á fundinum. Guðni forseti og Bjarni forsætisráðherra sáu um það og voru þau orðaskipti að mestu formfastar línur „úr kansellíinu“, skrifar Benedikt.
Eftir þennan fyrsta ríkisráðsfund hafði ráðuneyti Bjarna Benediktssonar formlega tekið við stjórnartaumunum og nýir ráðherrar stefndu á nýja vinnustaði sína til þess að taka við lyklum úr hendi forvera þeirra. „Betra gat það ekki orðið,“ skrifar Benedikt að lokum. „Nú er hægt að byrja að vinna.“
Pistilinn má lesa á vefnum heimur.is