Stjórnvöld í Bretlandi mega ekki hefja formlegt útgönguferli úr Evrópusambandinu án þess að um það séu greidd atkvæði í breska þinginu fyrst. Þetta er niðurstaða hæstaréttar í Bretlandi.
Málið snýst um grein 50 í Lissabon-sáttmála ESB, en greinin fjallar um útgöngu ríkja úr sambandinu. Átta hæstaréttardómarar voru sammála um að stjórnvöld megi ekki virkja þessa grein án þess að bera það undir þingið fyrst, en þrír voru í minnihluta og töldu samþykki þingsins ekki þurfa.
Ríkisstjórn Bretlands er „vonsvikin“ yfir niðurstöðunni, segir ríkissaksóknarinn Jeremy Wright, sem fór með málið fyrir hönd stjórnvalda. Hann sagði að engu að síður þurfi allir að fara eftir lögunum og það muni ríkisstjórnin einnig gera.
Búist er við því að strax á næstu dögum komi fram frumvarp á þinginu sem myndi gefa ríkisstjórninni leyfi til að virkja 50. greinina.
Hæstiréttur úrskurðaði einnig að bresk stjórnvöld þurfi ekki að hafa samráð við stjórnvöld í Skotlandi, Wales og Norður-Írlandi um að hefja útgönguferlið.