Pressan ehf., eitt umsvifamesta fjölmiðlafyrirtæki landsins, skilaði ellefu milljóna króna hagnaði á árinu 2015 samkvæmt nýbirtum ársreikningi þess. Skuldir samstæðunnar jukust að að sama skapi úr 272 milljónum króna í 444 milljónir króna á árinu. Þær hafa rúmlega sexfaldast frá árinu 2013. Ekki kemur fram hverjir lánveitendur Pressunnar eru. Dótturfélag Pressunnar, Vefpressan ehf., tapaði hins vegar 20 milljónum króna á árinu 2015. Annað dótturfélag hennar, Eyjan miðlar ehf., tapaði 6,6 milljónum króna á sama ári. DV ehf., sem rekur DV og og DV.is, hefur ekki birt ársreikning sinn.
Hafa sankað að sér fjölmiðlum
Pressan ehf. hefur verið umsvifamikil á fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum. Fyrirtækið keypti m.a. DV seint á árinu 2014 og rekur auk þess fjölda vefa og vikublaða. Þeirra á meðal eru Pressan, Eyjan, DV.is og Bleikt.is. Í haust bættust sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritaútgáfan Birtingur við eignasafn Pressunnar.
Eigendur Pressunnar ehf. eru að stærstu leyti félög í eigu Björns Inga Hrafnssonar og Arnars Ægissonar, samstarfsmanns hans í fjölmiðlarekstri til margra ára. Þeir eiga samtals 82 prósent í Pressunni. Aðrir eigendur eru Steinn Kári Ragnarsson, sem á tíu prósent, og Jakob Hrafnsson, bróðir Björns Inga, sem á átta prósent hlut.
Skuldir aukist mikið
Skuldir Pressusamstæðunnar hafa aukist gríðarlega á skömmum tíma samhliða yfirtöku á mýmörgum fjölmiðlum. Í árslok 2013 skuldaði Pressan 69 milljónir króna en tveimur árum síðar voru skuldirnar komnar í 444 milljónir króna. Þær samanstanda af 206 milljóna króna hluthafaláni, skuldabréfaláni upp á 50 milljónir króna sem veitt var árið 2015 og óskilgreindum skammtímaskuldum upp á 188 milljónir króna.
Samhliða aukinni skuldsetningu hefur bókfært virði eigna aukist umtalsvert. Þær eru nú 601 milljón króna og nánast tvöfaldast á milli ára. Þar munar mest um að viðskiptavild og þróunarkostnaður hækkar um tæpa 50 milljónir króna í 172 milljónir króna, að eignarhlutur í öðrum félögum er metinn á um 146 milljónir króna, að útgáfuréttur er metinn á 33 milljónir króna og að útistandandi viðskiptakröfur fara úr 16 milljónum króna í 178 milljónir króna.
Rekstrarreikningur Pressunnar er samandreginn og engar upplýsingar er þar að finna um hver velta fyrirtækisins var á árinu 2015 né úr hverju hagnaður þess er samsettur.