Þrettán þingmenn stjórnarandstöðunnar vilja að Kristján Þór Júlíusson, mennta- og menningarmálaráðherra, skipi starfshóp til að gera úttekt á starfsemi fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins og leiðir til að tryggja stöðu þeirra. Þingmennirnir, sem koma úr öllum stjórnarandstöðuflokkunum, hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis á Alþingi.
Samkvæmt tillögunni á starfhópurinn að leggja fram tillögur sem fela í sér aðferðir og leiðir til að efla og tryggja stöðu landsbyggðarfjölmiðla „þannig að þeir fái gegnt lýðræðis-, menningar-, upplýsinga- og fræðsluhlutverki sínu.“ Hópurinn eigi að skila skýrslu og tillögum eigi síðar en 1. nóvember næstkomandi.
Í greinargerð með tillögunni kemur fram að það sé margra álit að fjölmiðlar sem starfræktir eru utan höfuðborgarsvæðisins búi við erfið starfsskilyrði sem hamli því á ýmsan hátt að þeir geti rækt hlutverk sitt eins og æskilegt væri. Því sé áríðandi að afla haldbærra upplýsinga um stöðu landsbyggðarfjölmiðla og styrkja rekstrargrundvöll þeirra þar sem þess sé þörf og forsendur séu fyrir slíkum stuðningi.
Þá er í greinargerðinni fjallað um aðrar tillögur sem komið hafi fram um stöðu fjölmiðla utan höfuðborgarsvæðisins, og um leiðir til þess að styrkja fjölmiðla, meðal annars opinberar styrkveitingar.
Nefnd þegar að störfum um stöðu fjölmiðla
Nú þegar er nefnd að störfum um svipuð mál, þótt sú nefnd fjalli ekki sérstaklega um stöðu landsbyggðarfjölmiðla. Illugi Gunnarsson, fyrrverandi mennta- og menningarmálaráðherra, skipaði nefnd til að bæta rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla í byrjun þessa árs. Nefndin á að gera athugun á stöðu einkarekinna fjölmiðla á Íslandi og er nú að störfum. Hún er að skoða ýmsar leiðir til þess að bæta stöðu einkarekinna fjölmiðla, meðal annars styrkjafyrirkomulag.
Nefndin byggir á þingsályktunartillögu sem Illugi lagði fram í október síðastliðnum, sem ekki náðist að klára fyrir kosningar. Í þeirri tillögu kom fram að fulltrúar einkarekinna fjölmiðla hefðu vakið athygli stjórnvalda á erfiðleikum sem blasa við í rekstri þeirra og megi rekja til ýmissa utanaðkomandi aðstæðna. Meðal annars megi telja til það að auglýsingamarkaðurinn hérlendis hafi ekki vaxið sem skyldi þrátt fyrir batnandi efnahag þjóðarinnar og auk þess fari ætið stærri hluti auglýsingafjár til erlendra stórfyrirtækja á borð við Google og Facebook. Þá hafi staða Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði einnig takmarkandi áhrif á möguleika annarra fjölmiðla til að afla auglýsingatekna.