Donald J. Trump hefur farið af stað með látum frá því hann sór embættiseiðinn og tók við sem forseti Bandaríkjana fyrir um viku síðan.
Fyrsta vikan hefur einkennst af gríðarlegum mótmælum - raunar þeim mestu í sögu Bandaríkjanna með mótmælum kvenna vítt og breitt um Bandaríkin og heiminn allan, daginn eftir embættistökuna - og síðan umdeildum ákvörðunum á færibandi. Flestar voru þær fyrirsjáanlegar og í takt við það sem hann sagði fyrir kosningar en engu að síður hefur komið á óvart hvað þær hafa verið afdráttarlausar.
Þar á meðal voru ákvarðanir um að afturkalla heilbrigðistryggingarkerfið sem nefnt hefur verið Obamacare, en það tryggði 20 milljónum manna aðgang að heilbrigðistryggingu sem annars höfðu hana ekki. Málið var eitt stærsta áherslumál Barack Obama.
Þá hefur verið tilkynnt um að veggurinn á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó verði byggður. Trump segir að Mexíkó muni greiða fyrir múrinn en stjórnvöld þar hafa sagt að það komi ekki til greina. Í gær kynnti Sean Spicer, fjölmiðlafulltrúi Donalds Trump, hugmynd um að lagður verði 20 prósent skattur á allar innfluttar vörur frá Mexíkó og peningarnarir notaðir til byggja múrinn.
Um leið og hugmyndirnar komu fram blossaði upp mikil reiði hjá stjórnvöldum í Mexíkó, sem sendur Trump og stjórn hans tóninn og sögðu augljóst að það yrðu bandarískir neytendur sem þyrftu að borga fyrir vegginn með hærra vöruverði. Vörur frá Mexíkó - þar á meðal ýmsar tegundir matvæla, raftækja og faratækja - væru nauðsynlegar fyrir Bandaríkjamarkað og því myndi skattlagningin skila sér í hærra vöruverði.
Nokkrum klukkutímum eftir yfirlýsingu Spicer greindi hann síðan frá því að skatturinn væri aðeins ein hugmynd af mörgum sem til greina kæmi, en Trump gengi út frá því að Mexíkó borgaði fyrir vegginn.
Forseti Mexíkó Enrique Pena Nieto sagði augljóst að Mexíkó vildi ekki borga fyrir vegginn og myndi ekki gera það. Hann segist reiðubúinn að efla samband Bandaríkjanna og Mexíkó með skynsömu samstarfi og viðskiptasamningum. En Mexíkó láti ekki kúga sig.
Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi fyrir Mexíkó en útflutningur fyrirtækja landsins til Bandaríkjanna nemur meira en 300 milljörðum Bandaríkjadala á ári. Þessi 122 milljóna íbúa þjóð er nær alveg háð markaðssvæði Bandaríkjanna og gæti skattlagning sem þessi orðið bylmingshögg fyrir efnahag landsins.
Mark Meadows, þingmaður Repúblikana, sagði eftir að hugmyndin kom fram frá Spicer í gær að sértæk skattlagning eins og þessi væri yfirleitt ekki til góðs, og það væru á endanum neytendur sem þyrftu að greiða fyrir hana.