Frosti Ólafsson, sem verið hefur framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs síðastliðin fjögur ár, hefur sagt upp störfum og tekur á næstunni við sem forstjóri Orfs Líftækni. Þegar er búið að ganga frá ráðningu eftirmanns Frosta hjá Viðskiptaráði og verður greint frá því um hvern sé að ræða í næstu viku. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu.
Frosti starfaði hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company í Kaupmannahöfn áður en hann tók við sem sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann vann meðal annars að gerð skýrslu fyrirtækisins um Ísland og vaxtarmöguleika þess í framtíðinni sem kom út árið 2012. Á grunni skýrslunnar var skipaður samráðsvettvangur um aukna hagsæld, þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem ætlað var að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið. Samhliða starfi sínu hjá Viðskiptaráði hefur Frosti setið í stjórn Háskólans í Reykjavík og fasteignaþróunarfélaga á vegum hans. Hann er hagfræðimenntaður og með MBA-gráðu frá London Business School.
Orf Líftækni framleiðir meðal annars Bioeffect-húðvörur sem seldar eru í yfir 1.000 verslunum í 28 löndum. Hjá ORF Líftækni og dótturfyrirtæki þess starfa nú um 40 starfsmenn, langflestir háskólamenntaðir.