Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar og heilbrigðisráðherra, hvetur alla til að mótmæla ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að banna komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í miklum meirihluta. Trump hefur einnig fyrirskipað að ekki verið tekið við flóttafólki frá Sýrlandi. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Facebook.
Þar segir Óttarr: „Mótmælum öll! Það er þyngra en tárum taki að upplifa þá mismunun og mannvonsku sem nýr bandaríkjaforseti leyfir sér að innleiða gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Hinn frjálsi heimur hlýtur að sameinast í fordæmingu.“
Óttarr, sem er einn þeirra þriggja manna sem leiða sitjandi ríkisstjórn, vitnar síðan í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem segir: „Í fjölmenningarsamfélagi felst mannauður og fjölbreytt reynsla sem er til þess fallin að auðga samskipti einstaklinga. Innflytjendum verði auðveldað að verða fullgildir og virkir þátttakendur í íslensku samfélagi. Vandað verði til reglubundinnar móttöku kvótaflóttafólks og stefnt að því að taka á móti fleiri flóttamönnum. Eftir sem áður verði fjármagn tryggt til neyðaraðstoðar á vegum alþjóðlegra stofnana.“ Óttarr biður fólk að halda þessu til haga og segir að það þurfi að berjast fyrir því góða í heiminum því það sigri ekki að sjálfu sér.
Fyrr í dag sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, í tengslum við sama mál, að það væri forgangsmál að berjast gegn hryðjuverkum „en baráttan verður erfiðari og það gerir illt verra ef við mismunum fólki eftir trúarbrögðum eða kynþætti.“