Íslendingurinn Meisam Rafiei sem keppir fyrir Íslands hönd í taekwondo fær ekki að taka þátt á US Open vegna banns Donalds Trumps Bandaríkjaforseta við komu fólks til Bandaríkjanna frá sjö ríkjum þar sem múslimar eru í meirihluta. Rafiei greinir frá þessu á Facebook síðu sinni.
Bann yfirvalda í Bandaríkjunum, sem leitt var fram með tilskipun frá Donald Trump Bandaríkjaforseta, nær til Íran, Jemen, Sýrlands, Írak, Sómalíu, Líbíu og Súdan.
Bannið hefur vakið gríðarlega hörð viðbrögð víða um heim og í Bandaríkjunum, þar sem því hefur verið mótmælt stanslaust frá því það var lagt á, ekki síst á flugvöllum vítt og breitt um Bandaríkin.
Rafiei varð í fyrra Norðurlandameistari í taewondo og er hann einnig landsliðsþjálfari Íslands. Hann er fæddur í Íran og hlaut íslenskan ríkisborgararétt árið 2011. Hann varð heimsmeistari unglinga árið 2002 og heimsmeistari hermanna árin 2006 og 2008.
Uppfært 22:38: –„Taekvondosamband Íslands sendi frá sér yfirlýsingu, þar sem bann bandaríska yfirvalda er harmað.
Taekwondosamband Íslands, TKÍ, harmar þá ákvörðun Bandaríkjastjórnar að meina Meisam Rafiei, landsliðsmanni í taekwondo og fyrrum landsliðsþjálfara, inngöngu í Bandaríkin. Meisam hugðist keppa á US Open sem fram fer í vikunni í Las Vegas, en var meinað að ferðast þangað á þeirri forsendu að hann fæddist í Íran, og er einstaklingum þaðan nú bannað að ferðast til Bandaríkjanna.
Meisam, sem varð íslenskur ríkisborgari árið 2012, er framúrskarandi íþróttamaður og hefur verið íþróttinni á Íslandi mikil lyftistöng síðan hann kom hingað til lands og hefur hann um árabil verið fastamaður í landsliði Íslands í bardaga.
TKÍ lýsir yfir fullum stuðningi við Meisam og er stjórn sambandsins þess fullviss að íslensk stjórnvöld munu gæta hagsmuna íslenskra ríkisborgara í þessu máli sem öðrum, og að hann muni geta keppt fyrir Íslands hönd á mótum erlendis í anda þeirrar virðingar sem er aðalsmerki íþróttarinnar.
Stjórn Taekwondosambands Íslands.“