Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að það hefði verið æskilegt fyrir hana að koma ekki að „tómu borði“ í ráðuneyti sínu hvað varðar deilu sjómanna og útgerðarmanna. Verkfall sjómanna sé eldra en ríkisstjórnin sem hún sitji í. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu Þorgerðar á Facebook.
Í Morgunblaðinu í morgun birtist forsíðufrétt þar sem sagði að ákveðinnar gremju og óþreyju gætti í röðum útgerðarmanna í garð Þorgerðar og Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna „andvaraleysis ráðherranna gagnvart verkfalli sjómanna“. Morgunblaðið hafði eftir ónafngreindum útgerðarmönnum að stjórnvöld „réðu yfir ákveðnum tækjum til þess að höggva á hnúta“. Blaðið sagðist enn fremur hafa heimildir fyrir því að óþreyju gætti innan þingflokks Sjálfstæðisflokks vegna málsins. Þá gagnrýndi Lilja Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, það að ríkisstjórnin væri að láta reka á reiðanum þegar helsta atvinnugrein landsmanna væri í lamasessi. Félög tengd sjávarútvegi eiga 96 prósent hlut í útgáfufélagi Morgunblaðsins.
Þorgerður segist skilja vel að þrýstingur skapist á stjórnvöld til að grípa inn í deilu útgerðarmanna og sjómanna, sem hefur staðið yfir frá miðjum desembermánuði. „Sá þrýstingur einskorðast ekki við einstaka hópa eða þingflokka, enda hefur verkfallið áhrif á samfélagið allt og langt út fyrir landsteinana. Aðal þrýstingurinn er hinsvegar á deiluaðila að ná samningum. Stjórnvöld eiga að fylgjast vel með á meðan, greina þjóðhagsleg áhrif verkfallsins og undirbúa ólíkar sviðsmyndir. Sú vinna er nú í fullum gangi í ráðuneytunum.
Ég neita því hinsvegar ekki að æskilegt hefði verið að koma ekki að tómu borði hvað þetta ærna verkefni varðar, en verkfallið er auðvitað eldra en ríkisstjórnin sjálf.
Eftir stendur að lausnin liggur hjá samningsaðilum sem ég treysti fyllilega að finna þá lausn sem skynsöm er fyrir sjómenn, útgerðir og þar með samfélagið allt.“