Ráðgjafi Donalds J. Trump Bandaríkjaforseta þegar kemur að endurskoðun regluverks fjármálamarkaða, Gary Cohn, segir að hin svonefnda Dodd-Frank löggjöf haldi aftur af bönkum og íþyngi þeim um of. Tilskipun Trumps er ætlað að afnema löggjöfina að nær öllu leyti en hún var fest í lög árið 2010, eftir allsherjarhrun á fjármálamörkuðum á árunum 2007 til 2009, og var henni ætlað að styrkja stoðir fjármálakerfisins og koma í veg fyrir að bankar yrðu of áhættusæknir.
Líkt og Trump sjálfur þá hefur Cohn öðru fremur starfað á fjármálamörkuðum í New York og var um árabil einn af framkvæmdastjórum Goldmans Sachs bankans. Þegar hann tók boði um að gerast ráðgjafi forseta þá seldi hann bréf í bankanum fyrir meira en 100 milljónir Bandaríkjdala, eða sem nemur um 11,5 milljörðum króna.
Samkvæmt frásögn Wall Street Journal þá er afnám Dodd-Frank laganna fyrst og fremst hugsað til að tryggja samkeppnishæfni bandaríska fjármálakerfisins. „Þetta hefur ekkert með Goldman Sachs að gera, þetta hefur ekkert með JP Morgan að gera, þetta hefur ekkert með Bank of America að gera. Þetta snýst um að skapa fjármálakerfinu okkar góð skilyrði til að viðhalda yfirburðastöðu á mörkuðum. Við megum ekki regluvæða fjármálakerfið um of og missa forskotið á markaðnum,“ sagði Cohn í viðtali.
Fastlega er búist við því að Demókratar - og einhverjir Repúblikanar sömuleiðis - muni setja sig upp á móti því að afnema regluverkið þar sem það er talið tryggja betur réttindi hins almenna borgara og lántaka, og einnig fjárfesta á markaði. Trump hefur margítrekað að hann ætli sér að skera stórkostlega niður eftirlit með fjármálakerfinu og þetta skref er líklega fyrsta skrefið af nokkrum. Einn af nánustu ráðgjöfum Trump í þessari vinnu er Carl Icahn, en hann er sjálfur einn af umsvifamestu fjárfestunum á Wall Street og hann stórt eignasafn skráðra hlutabréfa. Heildareignir hans eru metnar á ríflega 17 milljarða Bandaríkjadala.