Bandarísk stjórnvöld felldu í dag úr gildi umdeilda tilskipun Donalds Trumps forseta sem bannaði fólki frá sjö löndum að koma til Bandaríkjanna næstu níutíu daga. Þetta var gert eftir að alríkisdómstóll í Washington ríki - Western District of Seattle - dæmdi á þá leið að bannið væri ólöglegt og stæðist ekki stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Það voru Seattle borg, Washington ríki, með aðstoð lögmanna frá Amazon og Microsoft, sem stóðu að málsókninni sem beindist beint gegn Donald Trump og tilskipun hans.
Fyrstu viðbrögð stjórnvalda í Bandaríkjunum voru þau, að niðurstaða dómstólsins skipti engu máli, en annað hljóð var komið í skrokkinn nokkrum klukkutímum síðara. Niðurstaðan var skýr og það var ekki mögulegt að stinga henni ofan í skúffu og halda áfram.
Nú hefur talsmaður utanríkisráðuneytisins í Washington staðfest þetta við fréttamenn. Að hans sögn verður enginn stöðvaður við komuna hafi hann gilda vegabréfsáritun, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Alríkisdómari í Washingtonríki lögbann á tilskipunina, sem hann sagði að stríddi gegn lögum landsins . Donald Trump fór í dag hörðum orðum um dómarann, James Robart, og úrskurð hans sem hann sagði að væri ógn við þjóðaröryggi. Á Twitter talaði hann um „svokallaðan dómara“.
Bannið náði til fólks frá Jemen, Sómalíu, Líbíu, Íran, Írak, Súdan og Sýrlands og gilti í 90 daga.
Komubann Trumps nær til sjö þjóða þar sem múslimatrú er í meirihluta meðal íbúa, og hafa tugþúsundir Bandaríkjamanna orðið fyrir áhrifum vegna þess. Það sama má segja um háskólanema, starfsfólk fyrirtækja sem á erindi til Bandaríkjanna og þá sem eru með tvöfalt ríkisfang.