Hagvöxtur hefur nú mælst á evrusvæðinu í fjórtán ársfjórðunga í röð, atvinnuleysi hefur minnkað og er nú komið undir 10% og viðhorf gagnvart hagkerfinu hefur ekki verið jákvæðara í sex ár. Frá þessu er greint í Financial Times, þar sem tekið er fram að þessi efnahagsbati hafi farið lágt í samanburði við hástemmd markmið og plön Donalds Trump Bandaríkjaforseta.
Þar er haft eftir Erik Nielsen, yfirhagfræðingi hjá UniCredit, að honum komi sífellt á óvart hversu mikil neikvæðni ríki í garð Evrópu. Slík viðhorf séu að mestu leyti byggð á því sem virðist vera yfirborðskennd skoðun á gögnum, eða kannski valkvæðum staðreyndum. Í raun sé það þannig að í janúar hafi fjöldi nýrra starfa á evrusvæðinu verið meiri en undanfarin níu ár.
Þrátt fyrir miklar áhyggjur af ítölskum bönkum og hinni langvinnu kreppu á Grikklandi hafi hagvöxtur á evrusvæðinu á fjórða ársfjórðungi í fyrra verið 0,5 prósent. Það er meira en í Bandaríkjunum. Þegar litið er á allt árið 2016 var vöxturinn 1,7 prósent á evrusvæðinu en 1,6 prósent í Bandaríkjunum.
Greinendur Financial Times segja nokkrar ástæður fyrir þessu batnandi efnahagsástandi á evrusvæðinu. Meðal annars sé að verða áratugur frá því að fjármálakreppan hófst og ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB hafi ekki reynst það áfall sem margir óttuðust. Þá hafi peningastefna Seðlabanka Evrópu loksins farið að virka, og heimili og fyrirtæki hafi farið að fá lánað og eyða. Það sé innlend eftirspurn sem hafi að mestu leyti orsakað vöxtinn.
Hagvöxtur hefur farið batnandi um allt evrusvæðið, nema á Ítalíu, og til að mynda var 3,2% vöxtur á Spáni í fyrra. Focus Economics, sem tekur saman ýmiss konar hagspár, hefur vakið athygli á því að mesta hækkunin í hagvaxtarspám fyrir þetta ár sé í Evrópu. Jafnvel árið 2018, þegar skattalækkanir og aðrar efnahagsaðgerðir Donalds Trump eiga að hafa sem mest áhrif, eru nýjustu spár fyrir evrusvæðið á pari við Bandaríkin.