„Hvað þennan stað varðar, þá er ég einarðlega þeirrar skoðunar að andstaða okkar gegn kynþáttafordómum og kynjamisrétti og stuðningur okkar við jafnrétti frammi fyrir lögum og sjálfstæðum dómstóli, sé þinginu mikilvægt umhugsunarefni.“
Þetta sagði John Bercow, forseti neðri deildar breska þingsins, í dag, samkvæmt frásögn BBC, en hann setti sig upp á móti því að Donald J. Trump ávarpaði breska þingið í opinberri heimsókn sinni til Bretlands.
Fyrsti þjóðhöfðingjinn sem Trump fundaði með í Bandaríkjunum var Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, en hún hefur sagt að Bretar vilji vinna náið með Bandaríkjunum þegar kemur að viðskiptum og stefnu í alþjóðastjórnmálum.
Óhætt er að segja málflutningur Trumps sé umdeildur víða um heim, og þá einkum og sér í lagi komubannið sem hann lagði á alla íbúa sjö ríkja þar sem múslimatrú er hjá meirihluta íbúa.
Í Bretlandi hefur Trump verið sérstaklega umdeildur, og þá einnig hjá íhaldsmönnum. Skemmst er að minnast þess þegar Boris Johnsson, utanríkisráðherra Bretlands og áður borgarstjóri í London, sagði að hann vildi ekki setja íbúa í London í þá hættu, að þurfa að rekast á Donald Trump.