Allur þingflokkur Pírata hefur lagt fram frumvarp til lagafrumvarp til laga um breytingu á lögum um fyrirtækjaskrá. Verði frumvarpið samþykkt myndi það fela i sér að engin gjaldtaka yrði tekið fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá og að allar upplýsingar myndu birtast við slíka uppflettingu.
Í greinargerð frumvarpsins segir að tilgangur frumvarpsins sé að gera upplýsingar fyrirtækjaskrár aðgengilegri fyrir almenning. „Lagt er til að ekki skuli taka gjald fyrir rafræna uppflettingu í fyrirtækjaskrá og að sömu upplýsingar skuli vera aðgengilegar þar og ef greitt væri fyrir eintak af gögnum úr skránni. Til dæmis er nú aðeins hægt að fá upplýsingar um stjórn og ársreikninga félaga með því að greiða fyrir þær og telja verður að þær séu því ekki aðgengilegar almenningi.“
Eins og málum er háttað í dag þarf að greiða fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra fyrir aðgang að ársreikningum fyrirtækja, upplýsingar um hluthafa og önnur skjöl sem skylt er að skila inn til hennar um breytingar hjá fyrirtækjum. Ýmis einkafyrirtæki selja einnig aðgang að slíkum upplýsingum frá fyrirtækjaskrá, t.d. Creditinfo og Keldan.
Smári McCarthy, þingmaður Pírata og einn flutningsmanna frumvarpsins, vakti athygli á þessu máli í þinginu 25. janúar síðastliðinn. Þar spurði hann Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra, hvort honum þætti rétt að opna fyrirtækjaskrá, ársreikningaskrár og hluthafaskrár upp á gátt. Benedikt svaraði því til að hann væri þeirrar skoðunar að ársreikningar, hluthafaskrár og fyrirtækjaskrár ættu að vera öllum opnar. „Ég tel að allar þessar skrár eigi að vera að vera opnar og vil bæta því við að ég tel að það eigi að vera gagnsætt eignarhald, þannig að það sé ekki bara sagt að það séu einhver félög sem eigi önnur félög. Það á að koma fram hver hinn endanlegi eigandi er,“ sagði Benedikt.