Landsbankinn hagnaðist um 16,6 milljarða króna eftir skatta í fyrra. Þar er tæplega 20 milljörðum króna minni hagnaður en bankinn sýndi árið 2015, þegar hagnaðurinn nam 36,5 milljörðum króna. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans sem birtur var eftir lokun markaða í dag. Landsbankinn er að nær öllu leyti í eigu íslenska ríkisins, en starfsmenn hans eiga einnig lítinn hlut. Lagt verður til við aðalfund bankans í mars að 13 milljarðar króna verði greiddir út til hluthafa vegna frammistöðu ársins 2016. Til viðbótar hyggst bankaráð Landsbankans leggja fram tillögu um sérstaka arðgreiðslu á aðalfundi, en greint verður frá fjárhæð hennar í tillögum fyrir aðalfund.
Samtals nemur hagnaður Landsbankans frá því að hann var endurreistur eftir bankahrunið 195,4 milljörðum króna. Helsta ástæða þess að að hagnaður Landsbankans dregst svona mikið saman milli ára er sú að virðisrýrnun útlána var jákvæð um 18,2 milljarða króna á árinu 2015 en neikvæð um 318 milljónir króna í fyrra.
Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að markaðshlutdeild hans á einstaklingsmarkaði sé nú 37,1 prósent og hafi aldrei mælst hærri. Arðsemi eiginfjár Landsbankans dregst verulega saman milli ára, fer úr 14,8 prósentum í 6,6 prósent. Þá hækkaði kostnaðarhlutfall í 48,4 prósent og rekstrarkostnaður var 23,5 milljarðar króna á árinu 2016.
Alls minnkaði efnahagsreikningur bankans um eitt prósent þrátt fyrir að útlán hans hafi aukist um fimm prósent milli ára. Hreinar þjónustutekjur hækkuðu um 14 prósent.
Reiknaðir skattar, þar með talið sérstakur fjársýsluskattur á laun, eru 9,2 milljarðar króna í uppgjöri fyrir 2016 samanborið við 13,1 milljarð króna árið 2015.
Hreiðar Bjarnason, starfandi bankastjóri Landsbankans, segir að grunnrekstur bankans hafi gengið vel í fyrra. „Hreinar vaxta- og þóknunartekjur jukust töluvert frá fyrra ári, en á sama tíma hefur rekstrarkostnaður bankans lækkað.
Markaðshlutdeild bankans á einstaklingsmarkaði hefur aldrei mælst hærri og staða bankans á fyrirtækjamarkaði og á fjármálamörkuðum er áfram sterk. Þá sýna mælingar að ánægja viðskiptavina bankans jókst umtalsvert á árinu, sem er okkur afar mikilvægt, enda leggur bankinn mikla áherslu á að veita viðskiptavinum sínum um allt land fyrirmyndarþjónustu á samkeppnishæfum kjörum.
Annað árið í röð hækkaði lánshæfismat Landsbankans hjá Standard & Poor’s og er nú BBB og er einkunn Landsbankans áfram með jákvæðar horfur eftir hækkunina. Þetta er ánægjuleg viðurkenning á því frábæra starfi sem unnið hefur verið í bankanum mörg undanfarin ár. Landsbankinn hefur lengi lagt áherslu á að rekstur bankans verði arðsamur þegar stórum og óvenjulegum liðum sleppir. Sú stefna hefur skilað árangri og bankinn mun halda áfram á sömu braut.“