Rússneski stjórnarandstæðingurinn Alexei Navalny var í gær dæmdur sekur um fjárdrátt og dæmdur í fimm ára skilorðsbundið fangelsi.
Ef dómurinn stendur þýðir það að Navalny getur ekki boðið sig fram til forseta Rússlands árið 2018, eins og hann hafði áformað. Hann hefur hins vegar heitið því að áfrýja og halda áfram sama hvað gerist í réttarsalnum. Hann sagði greinilegt að dómurinn yfir honum væru skilaboð frá stjórnvöldum í Kreml um að hann, fólkið í kringum hann og þeir Rússar sem eru sammála honum séu talin of hættuleg til að hægt sé að hleypa honum í kosningabaráttuna. „Þessum dómi verður snúið. Ég er í fullum rétti samkvæmt stjórnarskránni að taka þátt í kosningum, og ég mun gera það. Ég mun halda áfram að vera fulltrúi hagsmuna fólks sem vill að Rússland verði venjulegt, heiðarlegt, ekki spillt ríki,“ sagði hann í réttarsalnum í gær.
Réttarhöldin eru af mörgum talin tilraun til þess eins að þagga niður í Navalny og koma í veg fyrir að hann bjóði sig fram, enda er þetta ekki í fyrsta skipti sem hann er dæmdur í málinu. Navalny er sakaður um að hafa skipulagt stuld á miklu magni af timbri frá ríkisreknu fyrirtæki, KirovLes. Frá því að rannsókn á málinu hófst í lok árs 2011 var henni margoft hætt vegna skorts á sönnunargögnum, en svo tekið upp að nýju. Hann var fyrst sakfelldur árið 2013 í sama máli, og dæmdur í fimm ára fangelsi. Eftir mikil mótmæli var honum sleppt úr haldi innan við sólarhring eftir að dómur var kveðinn upp yfir honum. Honum var einnig leyft að bjóða sig fram til borgarstjóra í Moskvu, á meðan áfrýjun á málinu var til meðferðar fyrir dómstólum. Hann tapaði kosningunum, eins og búist var við, en hlaut tæplega þrjátíu prósent atkvæða. Það telst stórsigur fyrir stjórnarandstæðing. Áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu að Navalny væri sekur en dómurinn yfir honum var skilorðsbundinn.
Málið var tekið fyrir aftur eftir að Mannréttindadómstóll Evrópu gerði athugasemdir við málsmeðferðina í fyrra. Lögmaður Navalny sagði við blaðamenn í gær að dómurinn í gær hefði ekki gert neitt til að svara gagnrýni mannréttindadómstólsins. Niðurstaðan hafi byggt á sömu sönnunargögnum og síðast og sami dómur kveðinn upp. Navalny birti dóminn frá því fyrir þremur árum síðan í gær í bútum á Twitter til að sýna fram á að niðurstaðan væri nákvæmlega sú sama, orð fyrir orð.