Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra og þingmaður Framsóknarflokksins, segir að Framsóknarflokkurinn hafi verið yfirtekinn í fjandsamlegri yfirtöku á flokksþingi í október, að sá hópur sem hafi framkvæmt þá yfirtöku sé með mjög ólíka pólitíska sýn frá hans eigin og telur hópinn ekki endilega njóta meirihlutastuðnings innan flokksins.
Sigmundur Davíð segist þó vera Framsóknarmaður og ætlar ekki að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Þetta kom fram í viðtali Björns Inga Hrafnssonar við Sigmund Davíð í þættinum Eyjunni á ÍNN í gærkvöldi.
Framsókn var með formúlu 2009-2016
Þar fór Sigmundur Davíð um víðan völl og ræddi meðal annars þær grundvallarbreytingar sem hann telur að séu að eiga sér stað í stjórnmálum út um allan heim. Hann sé þeirrar skoðunar að stjórnmálaumhverfið verði aldrei aftur eins og það var í marga áratugi, m.a. hérlendis þegar fjórir flokkar mynduðu grunn að kerfinu og einn óánægjuflokkur sem væri breytilegur eftir tíðaranda væri með.
Sigmundur Davíð vísaði í kjör Donald Trump sem forseta Bandaríkjanna sem dæmi um þessar breytingar og sagði að Bandaríkjamenn hefðu ekki kosið Trump vegna þess hvernig hann sé heldur þrátt fyrir það. Fólk hafi viljað kasta sprengju inn í kerfið. Uppreisnin gagnvart kerfinu hafi því miður tekið á sig öfga til hægri og vinstri. Hérlendis hafi Framsóknarflokkurinn verið með formúlu við þessari eftirspurn gegn kerfisræðinu á árunum 2009-2016, á meðan að Sigmundur Davíð sjálfur hafi verið formaður flokksins. Sú formúla hafi verið „róttæk rökhyggja“.
Í henni felst að sögn forsætisráðherrans fyrrverandi að berjast gegn kerfinu, taka slaginn fyrir heilbrigða skynsemi og þora að ræða mál „sem rétttrúnaðurinn bannar“ umræðu um. Í kjölfarið gagnrýndi Sigmundur Davíð embættismenn í íslenska stjórnkerfinu, að undanskildum starfsmönnum forsætisráðuneytisins, fyrir að láta sig það engu skipta hverjir væru að stjórna hverju sinni. Þeir einfaldlega gerðu hlutina eftir eigin höfði.
Verða ekki varahjól ríkisstjórnarinnar
Sigmundur Davíð ræddi einnig stöðuna í stjórnmálum í dag. Hann sagðist ekki sjá fyrir sér, líkt og margir hafa ýjað að, að Framsóknarflokkurinn muni hlaupa til og ganga inn í þá ríkisstjórn sem mynduð var í síðasta mánuði ef með þarf til að halda henni á lífi. „Það var aldrei rætt við flokkinn í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum þannig að ég á ekki von á því að flokkurinn fari í þá niðurlægingu að láta kippa sér inn sem varahjóli.“
Það væri ekki hægt að tala um að sitjandi ríkisstjórn væri með eins manns meirihluta í ljósi þess hversu ólíkir flokkar væru í stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnin gæti ætlað sér að spila á stjórnarandstöðuna í ýmsum málum.
Ekki að hætta í stjórnmálum
Sigmundur Davíð tapaði í formannskosningum fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í byrjun október 2016. Síðan þá hefur ríkt mikil kergja í samskiptum hans við flokksforystuna og Sigurður Ingi hefur sagt það opinberlega að það sé „viðvarandi verkefni“ að bæta samskiptin við Sigmund Davíð.
Framsókn beið afhroð í Alþingiskosningunum í lok október 2016 og fékk einungis 11,5 prósent atkvæða. Það er versta niðurstaða í kosningum í 100 ára sögu flokksins. Sjálfur sagði Sigmundur Davíð eftir kosningarnar í lok október að átök á flokksþingi flokksins hefðu verið ástæða þess að flokknum gekk svo illa. Ef hann hefði sjálfur leitt flokkinn í gegnum þær hefði hann fengið á bilinu 18 til 19 prósent fylgi.
Sigmundur Davíð ræddi þessa stöðu ítarlega í viðtalinu við Björn Inga. Hann sagði þann hóp, eða hópa, sem hafi sameinast um að yfirtaka Framsóknarflokkinn í fjandsamlegri yfirtöku á síðasta flokksþingi, vera með mjög ólíka sýn á stjórnmál en þá sem hann sjálfur hefur. Það vanti upp á hjá þessum hópi að þora og svara kalli tímans.
Björn Ingi spurði Sigmund Davíð hvort hann hefði velt því fyrir sér að stofna nýjan stjórnmálaflokk. Því svaraði Sigmundur Davíð með að segja að hann væri í Framsóknarflokknum vegna þess að hann telji að flokkurinn eigi erindi. Framsókn geti á sama tíma verið elsti flokkurinn með lengstu söguna en líka sá sem eigi mestu framtíðina. „En það er ekkert launungarmál að það eru ekkert allir sama sinnis hvernig eigi að haga þeim hlutum. Þannig virkar lýðræðið og ég sem félagi í flokknum mun auðvitað bara beita mér fyrir því að flokkurinn sé eins og nauðsynlegt er að hann sé til þess að geta gert gagn fyrir samfélagið. Hann verður umfram allt að passa sig á að verða ekki kerfisflokkur sem starfar eftir gömlu leikreglum stjórnmálanna sem eru nú mjög á undanhaldi og ganga annars vegar út á ímyndarpólitík út á við og inn á við endalausa baráttu sem líkist meira mafíu-dínamík þar sem menn brosa hver framan í annan þangað til að þeir hafa tækifæri til að stinga hann í bakið. Það er engin framtíð í slíku stjórnmálaafli. Slíkir stjórnmálaflokkar sem ganga út á þetta tvennt [...] þeir eftirláta embættismannakerfinu það að stjórna. Svo er stjórnmálamaðurinn bara í hlutverki leikara sem tekur þátt í sýningu út á við.“
Sigmundur Davíð sagði að lokum að það væri langt frá því að hann væri að hætta í stjórnmálum.