Embætti Héraðssaksóknara hefur hafið rannsókn á því eftir hvaða leiðum gögn um fjármálaumsvif dómara láku til fjölmiðla. Málið varðar brot á lögum um bankaleynd.
Frá þessu var greint á vef RÚV í gær.
Nokkrir dómarar við Hæstarétt áttu í viðskiptum með hlutabréf í Glitni fyrir hrun. Ítarlega var fjallað um málið í fjölmiðlum, í byrjun desember, meðal annars í Kastljósi og í fréttum Stöðvar 2.
Greint var frá því í fréttum Stöðvar 2 og í Kastljósi 5. desember að Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar, hefði átt hlutabréf í Glitni fyrir hrun og síðar fjárfest um 60 milljónum króna í verðbréfasjóði í rekstri Glitnis. Í Kastljósi var enn fremur greint frá því að Ólafur Börkur Þorvaldsson, sem gegnt hefur embætti hæstaréttardómara frá árinu 2003, hafi einnig átt hlutabréf í Glitni um tíma á árinu 2007. Hann seldi bréf sín í lok þess árs og fjárfesti í verðbréfasjóði innan Glitnis. Í Fréttablaðinu í morgun var svo sagt frá því að hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Ingveldur Einarsdóttir og Árni Kolbeinsson, sem nú er hættur störfum, hafi einnig öll átt hlutabréf í Glitni á árunum 2007 og 2008. Allir dómararnir fimm hafa dæmt í málum sem tengjast Glitni, bæði fyrir og eftir hrun. Þar á meðal eru sakamál gegn starfsmönnum eignastýringar Glitnis. Dómararnir lýstu ekki yfir vanhæfi í neinu þeirra mála.
Gögnin sem birt voru sýndu samskipti Markúsar við eignastýringu Glitnis. Á meðal þeirra voru tölvupóstar og skjöl sem hann undirritaði til að veita heimild til fjárfestingar. Gögnin eru bundin bankaleynd og alls ekki aðgengileg mörgum. Starfsmenn slitastjórnar Glitnis eftir hrun hafa þó mögulega getað flett þeim upp í kerfum bankans auk þess sem starfsmenn eignastýringar Glitnis fyrir hrun gátu nálgast þau.
Markús sendi frá sér yfirlýsingu daginn eftir þar sem hann segist hafa tilkynnt nefnd um dómarastörf um sölu á hlutabréfum í sinni eigu þegar viðskiptin áttu sér stað, og hann hafi fengið leyfi nefndarinnar þegar honum áskotnuðust þau. Hann hafi hins vegar ekki þurft að tilkynna um hvernig hann ráðstafaði peningunum eftir söluna.
Gögnin tengjast meðal annars einkabankaþjónustu Glitnis fyrir hrunið, en bæði Íslandsbanki og slitastjórn Glitnis hafa fullyrt að gögnin hafi ekki komið frá þeim.
Fjármálaeftirlitið tók málið til meðferðar og fyrir um mánuði síðan sendi eftirlitið kæru til embættis Héraðssaksóknara. Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti þetta við RÚV í gær.
Meint brot sem eru til rannsóknar nú, á grundvelli fyrrnefndrar kæru, snúast um brot á þagnarskyldu samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki.