RÚV braut gegn lögum um Ríkisútvarpið með því að kosta sjö þætti í sjónvarpsdagskrá sinni. Þetta er niðurstaða fjölmiðlanefndar.
Það voru 365 miðlar sem kvörtuðu yfir RÚV, en fyrirtækið taldi að RÚV hefði brotið gegn lögum um Ríkisútvarpið með því að kosta dagskrárliðina Árið er – upprifjun á Eurovision, Popp og rokksaga Íslands, Vikan með Gísla Marteini, Hraðfréttir og Íþróttalífið. Þessi kvörtun barst í ágúst síðastliðnum en áður höfðu 365 miðlar kvartað með sambærilegum hætti yfir kostun á Hraðfréttum, Útsvari og Óskalögum þjóðarinnar.
Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið má ekki afla tekna með kostun dagskrárefnis nema í undantekningatilfellum. Undantekningarnar eru annars vegar „við útsendingu íburðarmikilla dagskrárliða til að mæta útgjöldum við framleiðslu eða kaup á sýningarrétti“ og hins vegar við útsendingu innlendra íþróttaviðburða og umfjöllun um þá.
Fjölmiðlanefnd komst að þeirri niðurstöðu að enginn þáttanna sem kvartað var undan féllu undir íburðarmikla dagskrárliði og því hefði verið óheimilt að kosta þættina.
RÚV þarf hins vegar ekki að greiða stjórnvaldssekt vegna þess að eftir að málið kom upp ákvað RÚV að gera grundvallarbreytingar á skilmálum um auglýsingar, sem fjölmiðlanefnd segir að feli í sér töluverða tekjuskerðingu fyrir félagið. Samkvæmt nýju reglunum falla bara sex þættir sem sýndir hafa verið á RÚV undanfarin tvö ár undir íburðarfulla dagskrárliði, en það eru Ófærð, 50 ára afmæli Sjónvarpsins, Ligeglad, Toppstöðin, Spaugstofan í 30 ár og Drekasvæðið. Það eru þættir og þáttaraðir þar sem framleiðslu- eða innkaupakostnaður nemur að lágmarki 30 milljónum króna á ársgrundvelli.