Hlutabréf í HB Granda hafa hækkað töluvert síðustu daga og rauk gengi bréfa félagsins upp eftir 8. febrúar síðastliðinn. Þá var gengi bréfa félagsins rúmlega 25 en á fjórum viðskiptadögum hækkaði það um 22,5 prósent. Sjómannaverkfall hefur staðið hefur yfir frá 14. desember með neikvæðum afleiðingum fyrir útgerðarfélög og sjávarútveginn í heild.
Veltan í þessum viðskiptum var rúmlega 570 milljónir, en í dag, eftir að tilkynningin um sextánföldun á loðnukvótanum kom, hækkuðu bréfin um 4,13 prósent í viðskiptum upp á 410 milljónir. Ekki liggur fyrir hvaða fjárfestar voru að kaupa bréf á þessum fyrrnefnda tíma.
Samkvæmt heimildum Kjarnans hefur töluvert verið rætt um það á markaði í dag, á meðal starfsmanna á fjármálamarkaði, hvort upplýsingar um þessa miklu aukningu loðnukvótans, hafi borist til einhverra áður en tilkynning kom fram. Slíkt á ekki að gerast, en tímasetning þessarar skörpu hækkunar hefur vakið athygli margra.
Tilkynningin var send út í morgun, og sagði í henni orðrétt: „Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur á grundvelli tillagna Hafrannsóknarstofnunar ákveðið að auka heildarafla íslenskra skipa á loðnu í alls 196.075 þúsund tonn á þessari vertíð. Áætlað heildarverðmæti loðnuaflans er um 17 milljarðar króna.
Fyrr í vetur hafði íslenskum skipum verið úthlutað rúmum 12 þúsund tonnum þannig að aukningin er rúmlega sextánföld. Samkvæmt lögum 116/2016 um stjórn fiskveiða verður 5,3% aflans úthlutað á skiptimarkaði, alls 10.392 tonnum.“
Deila sjómanna og útgerða er enn óleyst, eftir að sjómenn höfnuðu gagntilboði SFS í dag. Reynt verður til þrautar að leysa deiluna á næstu dögum.
Markaðsvirði HB Granda er nú 57 milljarðar króna.