Fundahöld áttu sér stað í síðustu viku með fulltrúum innlendra lífeyrissjóða þar sem Höskuldur Ólafsson bankastjóri og Stefán Pétursson fjármálastjóri Arion banka kynntu starfsemi hans með aðkomu sjóðanna fyrir augum, við sölu bankans.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Ríkið á 13 prósent í Arion banka og Kaupþing 87 prósent. Horft er til tvöfaldrar skráningar á bankanum, í Svíþjóð og á Íslandi, eins og greint var frá á vef Reuters 18. janúar sl.
Undirbúningur sölunnar hefur staðið um langa hríð. Þau tölulegu gögn sem lágu fyrir fundinum byggðust á síðasta 9 mánaða uppgjöri bankans, sem tilkynnt var til Kauphallar um miðjan nóvember síðastliðinn, að því er segir í Morgunblaðinu.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að ljóst þyki, að tilgangur fundahaldanna sé að búa lífeyrissjóði undir að til þeirra verði leitað og þeim boðinn hlutur í bankanum þegar kemur að sölu hans, sem samkvæmt því sem fram kom gæti orðið í apríl.
Hagnaður Arion banka á árinu 2016 nam 21,7 milljörðum króna samanborið við 49,7 milljarða króna árið 2015. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum sem send var út í gær.
Höskuldur Ólafsson, bankastjóri, segir uppgjörið viðunandi. Hann gagnrýnir stjórnvöld í landinu fyrir að framlengja bankaskattinn svonefnda og segir hann fyrst og fremst stuðla að hærra vaxtastigi í landinu. Sérstaklega víkur hann að íbúðalánamarkaði þar sem hann segir samkeppnisstöðu ekki vera jafna. „Bankar keppa á innlendum markaði við lífeyrissjóði þegar kemur að veitingu íbúðalána en lífeyrissjóðir greiða hvorki tekjuskatt né fjársýslu- eða bankaskatt. Ljóst er að samkeppnisstaðan á þessum markaði er ekki jöfn og aðgerðir stjórnvalda fela í sér einkennilega íhlutun á samkeppnismarkaði. Alls greiðir Arion banki um fimm milljarða í skatta á árinu sem fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum greiða ekki. Bankaskatturinn hefur haft takmörkuð áhrif á verðlagningu bankanna hingað til enda átti hann að vera tímabundinn. Þar sem skatturinn leggst á fjármögnun banka þá leiðir hann til kostnaðarauka hjá viðskiptavinum bankanna og stuðlar þegar allt kemur til alls að hærra vaxtastigi í landinu. Mikilvægt er að þessi skattlagning verði endurskoðuð,“ segir Höskuldur.
Arðsemi eigin fjár bankans var 10,5 prósent á árinu samanborið við 28,1 prósent árið 2015. Reiknaður hagnaður af reglulegri starfsemi nam 9,7 milljörðum króna samanborið við 14,1 milljarð á árinu 2015.
Arðsemi eigin fjár af reglulegri starfsemi nam 4,7% samanborið við 8.7% á árinu 2015.