Þrettán af nítján starfsmönnum hjá kærunefnd útlendingamála munu láta af störfum í lok mars vegna lægri framlaga til nefndarinnar af fjárlögum. Við þetta mun starfsemi nefndarinnar dragast verulega saman. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Hirti Braga Sverrissyni, formanni kærunefndar útlendingamála.
Kærunefndin segist ítrekað hafa vakið athylgi á afleiðingum skertra fjárheimilda á starfsemina og málsmeðferðartíma, en segir að vilji til að veita nefndinni aukið fjármagn hafi ekki leitt til vilyrðis um auknar fjárheimildir.
Kærunefnd útlendingamála var sett á laggirnar fyrir tveimur árum síðan, en hún var stækkuð og henni veittar auknar fjárheimildir í fyrra samhliða mikilli aukningu í umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi. Kærunefndin er stjórnsýslunefnd sem úrskurðar í málefnum útlendinga. „Þrátt fyrir að ekki sé fyrirsjáanlegt að kærum til nefndarinnar fækki fékk nefndin í fjárlögum ársins 2017 aðeins um helming þeirra fjárheimilda sem hún taldi þörf á til að halda afgreiðslutíma mála áfram innan markmiða stjórnvalda um 90 daga meðalmálsmeðferðartíma,“ segir í yfirlýsingunni.
Síðustu þrjá mánuði hafi meðalafgreiðslutími nefndarinnar á málum vegna umsókna um alþjóðlega vernd verið 76 dagar, en var um 300 dagar þegar nefndin hóf störf. „Við blasir að bið eftir niðurstöðu í þessum málum mun byrja að lengjast strax og starfsmönnum fækkar og verður í lok þessa árs, miðað við óbreyttar fjárheimildir, sambærileg við það sem þekktist áður en kærunefndin hóf störf.“
Kærunefndin metur fjárþörf nefndarinnar umfram fjárlög ársins 2017 um 140 milljónir króna en segir jafnframt að ætla megi að kostnaður vegna lengri dvalar umsækjenda um alþjóðlega vernd hér á landi á meðan þeir bíða niðurstöðu verði margföld sú upphæð á árinu. „Hefur þá verið tekið tillit til þeirra sem koma frá öruggum upprunaríkjum og yfirgefa landið fljótlega eftir synjun hjá Útlendingastofnun. Vegna ákvæða í nýjum útlendingalögum um áhrif langs málsmeðferðartíma á niðurstöðu mála mun þessi bið í auknum mæli leiða til þess að umsækjendur um alþjóðlega vernd öðlist rétt til dvalar hér á landi.“