Vel á annað hundrað konur hafa á undanförnum dögum lýst því yfir á samfélagsmiðlum að í ljósi umræðu í fjölmiðlum vilji þær taka fram að þær séu tilbúnar að takast á við ábyrgðarstörf í íslensku atvinnulífi. Það hafa þær gert með myllumerkinu #konurstígafram.
Eitt stærsta verkefni FKA á þessu ári verður að beita sér í að auka hlut kvenna í efsta lagi stjórnenda. Þessi herferð eru viðbrögð við umfjöllun fjölmiðla um stöðu kvenna í atvinnulífinu, segir ein stjórnarkona FKA, Áshildur Bragadóttur, forstöðumaður Höfuðborgarstofu. „Stjórn FKA vildi hvetja konur til að vekja athygli á að þær eru reiðubúnar til að stíga fram. Konur tóku svo mjög vel við sér, og það er frábært að sjá það,“ segir Áshildur við Kjarnann. Hún segir félagið ætla sér að vera sterkara hreyfiafl í því að vekja athygli á hlutdeild kvenna og karla í stjórnum, efsta stjórnendalagi og í fjölmiðlum. Það vilji bæði hrósa því sem vel sé gert, og sömuleiðis stíga fram þegar hallar á konur.
Hrafnhildur Hafsteinsdóttir, framkvæmdastjóri FKA, bendir á að í félaginu séu þúsund kvenstjórnendur og leiðtogar sem eru í stjórnendastöðum og gefa kost á sér til áframhaldandi forystu. Hvatningin fór þannig fram að stjórnin hvatti konur til að vekja athygli á sér með færslu á samfélagsmiðlum, „og var fyrst og fremst hvatning til að vekja athygli á þeim gríðarlega mannauði sem býr í konum og þær eru tilbúnar til að stíga fram,“ segir Hrafnhildur.
Áshildur segir að hún hafi fylgst mjög vel með jafnréttisbaráttu frá því að hún var unglingur og henni þyki hlutirnir hafa þróast mjög hægt. „Ég á fjórar dætur og ég er svolítið óþolinmóð og vil fara að sjá meiri breytingar.“ Konur þurfi að vera óhræddar við að tjá sig og þá þurfi líka að fá karla til liðs við þær við að stíga fram með það að ástandið sé óeðlilegt. „Við erum með fleiri konur sem eru menntaðar, en á sama tíma þá sjáum við að konur virðast ekki vera valdar í jafn ríkum mæli til ábyrgðarstarfa. Ég vil sjá þetta gerast hraðar.“
Yfir 90 prósent stjórnenda fjármálakerfisins karlar
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í vikunni eru 91 prósent þeirra sem stýra peningum á Íslandi karlar. Það eru 80 karlar, en átta konur sem eru í æðstu stjórnendastöðum viðskiptabanka, sparisjóða, lífeyrissjóða, skráðra félaga, félaga á leið á markað, óskráðra tryggingafélaga, lánafyrirtækja, verðbréfafyrirtækja og –miðlana, framtakssjóða, orkufyrirtækja, greiðslustofnana, Kauphallar og lánasjóða.
Þegar Kjarninn framkvæmdi úttektina fyrst, í febrúar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 talsins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex konur. Hlutfallslega skiptingin var því þannig að karlar voru 93 prósent stjórnenda en konur sjö prósent. Árið 2015 voru störfin 87, karlarnir 80 og konurnar sjö. Hlutfallið hafði því „lagast“ en var samt þannig að 92 prósent stjórnenda voru karlar en átta prósent konur. Í fyrra var hlutfallið það sama og árið áður. 92 prósent þeirra sem stýrðu peningum hérlendis voru karlar. Hlutfallið hefur því nánast ekkert breyst á síðustu fjórum árum.