#efnahagsmál#jafnréttismál

Á annað hundrað konur stíga fram

Félag kvenna í atvinnulífinu ákvað að hvetja konur til að lýsa því yfir að þær séu reiðubúnar að taka að sér ábyrgðarstörf í atvinnulífinu eftir umfjöllun um stöðu kynjanna í fjölmiðlum.

Stjórn FKA og framkvæmdastjóri.
Stjórn FKA og framkvæmdastjóri.

Vel á annað hund­rað konur hafa á und­an­förnum dögum lýst því yfir á sam­fé­lags­miðlum að í ljósi umræðu í fjöl­miðlum vilji þær taka fram að þær séu til­búnar að takast á við ábyrgð­ar­störf í íslensku atvinnu­lífi. Það hafa þær gert með myllu­merk­inu #kon­ur­stíga­fram.

Her­ferðin átti upp­tök sín hjá stjórn FKA, Félags kvenna í atvinnu­líf­inu, eftir umfjöllun Kjarn­ans um stöðu kvenna í æðstu stjórn­un­ar­stöðum í fjár­mála­geir­an­um, umfjöllun um sama mál í Kast­ljósi í kjöl­farið og umfjöllun í Mark­aðnum um stöðu kvenna í fram­kvæmda­stjóra­stöðum stórra fyr­ir­tækja. Nið­ur­staðan í öllum umfjöll­unum var svip­uð, staða kvenna í æðstu stjórn­enda­lögum fyr­ir­tækja hefur sára­lítið breyst eða batnað á und­an­förnum árum, og karlar eru í mjög miklum meiri­hluta víð­ast hvar. 

Auglýsing

Áshildur Bragadóttir Eitt stærsta verk­efni FKA á þessu ári verður að beita sér í að auka hlut kvenna í efsta lagi stjórn­­enda. Þessi her­­ferð eru við­brögð við umfjöllun fjöl­miðla um stöðu kvenna í atvinnu­líf­inu, segir ein stjórn­ar­kona FKA, Áshildur Braga­dótt­­ur, for­­stöð­u­­maður Höf­uð­­borg­­ar­­stofu. „Stjórn FKA vildi hvetja konur til að vekja athygli á að þær eru reiðu­búnar til að stíga fram. Konur tóku svo mjög vel við sér, og það er frá­­­bært að sjá það,“ segir Áshildur við Kjarn­ann. Hún segir félagið ætla sér að vera sterkara hreyfi­afl í því að vekja athygli á hlut­deild kvenna og karla í stjórn­um, efsta stjórn­enda­lagi og í fjöl­miðl­um. Það vilji bæði hrósa því sem vel sé gert, og sömu­leiðis stíga fram þegar hallar á kon­ur. 

Hrafn­hildur Haf­steins­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri FKA, bendir á að í félag­inu séu þús­und kven­stjórn­endur og leið­togar sem eru í stjórn­enda­stöðum og gefa kost á sér til áfram­hald­andi for­ystu. Hvatn­ingin fór þannig fram að stjórnin hvatti konur til að vekja athygli á sér með færslu á sam­fé­lags­miðl­um, „og var fyrst og fremst hvatn­ing til að vekja athygli á þeim gríð­ar­lega mannauði sem býr í konum og þær eru til­búnar til að stíga fram,“ segir Hrafn­hild­ur. 

Áshildur segir að hún hafi fylgst mjög vel með jafn­rétt­is­bar­áttu frá því að hún var ung­lingur og henni þyki hlut­irnir hafa þró­ast mjög hægt. „Ég á fjórar dætur og ég er svo­lítið óþol­in­móð og vil fara að sjá meiri breyt­ing­ar.“ Konur þurfi að vera óhræddar við að tjá sig og þá þurfi líka að fá karla til liðs við þær við að stíga fram með það að ástandið sé óeðli­legt. „Við erum með fleiri konur sem eru mennt­að­ar, en á sama tíma þá sjáum við að konur virð­ast ekki vera valdar í jafn ríkum mæli til ábyrgð­ar­starfa. Ég vil sjá þetta ger­ast hrað­ar­.“ 

Yfir 90 pró­sent stjórn­enda fjár­mála­kerf­is­ins karlar

Líkt og Kjarn­inn greindi frá fyrr í vik­unni eru 91 pró­sent þeirra sem stýra pen­ingum á Íslandi karl­ar. Það eru 80 karl­ar, en átta konur sem eru í æðstu stjórn­enda­stöð­um við­skipta­banka, spari­sjóða, líf­eyr­is­sjóða, skráðra félaga, félaga á leið á mark­að, óskráðra trygg­inga­fé­laga, lána­fyr­ir­tækja, verð­bréfa­fyr­ir­tækja og –miðl­ana, fram­taks­sjóða, orku­fyr­ir­tækja, greiðslu­stofn­ana, Kaup­hallar og lána­sjóða. 

Þegar Kjarn­inn fram­kvæmdi úttekt­ina fyrst, í febr­úar 2014, voru störfin sem hún náði yfir 88 tals­ins. Þá sátu 82 karlar í þeim störfum en sex kon­ur. Hlut­falls­lega skipt­ingin var því þannig að karlar voru 93 pró­sent stjórn­enda en konur sjö pró­sent. Árið 2015 voru störfin 87, karl­arnir 80 og kon­urnar sjö. Hlut­fallið hafði því „lagast“ en var samt þannig að 92 pró­sent stjórn­enda voru karlar en átta pró­sent kon­ur. Í fyrra var hlut­fallið það sama og árið áður. 92 pró­sent þeirra sem stýrðu pen­ingum hér­lendis voru karl­ar. Hlut­fallið hefur því nán­ast ekk­ert breyst á síð­ustu fjórum árum.

Meira úr sama flokkiInnlent
None