Kvika banki hagnaðist um tæpa tvo milljarða króna í fyrra eftir skatta og arðsemi eiginfjár hjá bankanum var 34,7 prósent. Eignir Kviku drógust saman á árinu um þrjú prósent og voru 59,5 milljarðar króna um síðustu áramót. Eigið fé bankans var 7,3 milljarðar króna og jókst á árinu þrátt fyrir að hlutafé hafi verið lækkað um milljarð króna á fyrri hluta síðasta árs. Eiginfjárhlutfallið var 20,6 prósent í lok árs 2016. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu frá Kviku.
Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku, segir að afkoman gefi bankanum byr undir báða vængi. „Kvika hefur sérstöðu á íslenskum fjármálamarkaði og eftirspurn er mikil eftir sérhæfðri þjónustu okkar. Framtíðin er björt fyrir eina sjálfstæða fjárfestingabanka landsins.“
Stærstu hluthafar bankans eru í dag Lífeyrissjóður verslunarmanna, Brimgarðar ehf. ( Í eigu Gunnars Þórs Gíslasonar og systkina og Cold Rock Investment Ltd.), K2B fjárfestingar (í eigu Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur),
Varða Capital ehf. ( í eigu Gríms A. Garðarssonar, Edward Schmidt og Jónasar H. Guðmundssonar), félagið Sigla ehf. (í eigu Tómasar Kristjánssonar, Finns Reys Stefánssonar og Steinunnar Jónsdóttur), Títan B ehf. (félags í eigu Skúla Mogensen) og Grandier ehf. (í eigu Donald McCarthy, Þorsteins Gunnars Ólafssonar og Sigurðar Bollasonar).
Samruni framundan
Kvika mun væntanlega stækka umtalsvert á árinu 2017. Stjórnir verðbréfafyrirtækisins Virðingar hf. og Kviku undirrituðu í nóvember 2016 viljayfirlýsingu um að undirbúa samruna félaganna tveggja undir nafni Kviku. Í aðdraganda sameiningar á að lækka eigið fé Kviku um 600 milljónir króna og greiða lækkunina til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku munu eftir samruna eiga 70 prósent hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30 prósent hlut.
Í tilkynningunni vegna undirritunar viljayfirlýsingar um samruna sagði: „Með sameiningu Kviku og Virðingar yrði til öflugt fjármálafyrirtæki sem væri leiðandi á fjárfestingabankamarkaði. Sameinað félag yrði einn stærsti aðili í eignastýringu á Íslandi með um 220 milljarða króna í stýringu og fjölda sjóða í rekstri s.s. verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði, framtakssjóði, fasteignasjóði, veðskuldabréfasjóði og ýmsa fagfjárfestasjóði. Auk þess myndi sameinað félag ráða yfir öflugum markaðsviðskiptum, fyrirtækjaráðgjöf, sérhæfðri lánastarfsemi og einkabankaþjónustu.