54,3 prósent þeirra sem tóku afstöðu í nýrri könnun MMR sögðu að hlutirnir á Íslandi séu á rangri braut. Á móti sögðu 45,7 prósent að þeir væru að þróast í rétta átt. Þeir sem höfðu áhyggjur af spillingu í fjármálum og/eða stjórnmálum, fátækt og/eða félagslegum ójöfnuði og viðhaldi velferðarkerfisins voru líklegri til að telja hlutina á Íslandi almennt séð á rangri braut. Þeir sem höfðu mestar áhyggjur af glæpum og ofbeldi, ofþyngd barna og verðbólgu reyndust líklegri til að telja hlutina á réttri leið.
Athygli vekur að eldra fólk, í aldurshópnum 50-67 ára, er líklegast til að telja hlutina vera á rangri braut. Innan þess hóps töldu 62 prósent að svo væri. Yngsti aldurshópurinn, 18-29 ára, og sá elsti, 68 ára og eldri, voru líklegastir til að telja að hlutirnir væru hér á réttri leið. Alls sögðust 51 prósent þeirra sem tilheyra yngsta aldurshópnum að svo væri en 52 prósent þeirra sem eru yfir 68 ára.
Afstaðan er einnig mjög mismunandi eftir tekjuhópum og stjórnmálaskoðunum. Um tveir af hverjum þremur sem hafa tekjur undir 600 þúsund krónum á mánuði telja að hlutirnir hérlendis séu á rangri braut á meðan að um og yfir helmingur þeirra sem eru með hærri tekjur telja að Ísland sé að stefna í rétta átt. Til að mynda telja 56 prósent þeirra sem eru með meira en milljón krónur í mánaðarlaun að stefnan sé rétt.
Kjósendur Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar skera sig úr þegar kemur að afstöðu til þess hvort stefna landsins sé rétt. Einungis 18 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokks og 20 prósent kjósenda Viðreisnar telja landið vera á rangri braut en um átta af hverjum tíu á meðal þeirra telja að stefnan sé rétt. Athygli vekur að 39 prósent kjósenda Bjartrar framtíðar, sem situr í ríkisstjórn með áðurnefndum flokkum, telja að Ísland sé á rangri braut. Þá vekur líka athygli að meirihluti kjósenda Framsóknarflokksins (52 prósent) telja að landið sé á réttri braut þrátt fyrir að flokkurinn sé ekki í ríkisstjórn. Á meðal kjósenda hinna stjórnarandstöðuflokkanna er sú afstaða mjög skýr að hlutirnir séu á rangri braut, en 66-79 prósent þeirra telja að svo sé.
Munurinn er einnig umtalsverður á milli landsvæða. Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru nokkuð jafnt skiptir í afstöðu sinni til stefnu landsins (51 prósent telur það á rangri leið en 49 prósent á réttri braut) á meðan að rúmlega sex af hverjum tíu sem búa á landsbyggðinni telja að hlutirnir séu að þróast á rangri braut.