Raunávöxtun Lífeyrissjóðs verzlunarmanna var neikvæð um 1,2 prósent í fyrra. Þar skiptir mest máli annars vegar að raunávöxtun á innlendu hlutabréfasafni sjóðsins var neikvæð um tvö prósent og að raunávöxtun erlendrar verðbréfaeignar, sem er um 26 prósent af eignum sjóðsins, var neikvæð um 9,7 prósent vegna mikillar styrkingar íslensku krónunnar. Á móti kom að raunávöxtun á skuldabréfaeign sjóðsins var jákvæð um 4,4 prósent. Ávöxtun sjóðsins í heild var jákvæð um 0,9 prósent. Þetta kemur fram í afkomutilkynningu sjóðsins sem send var út í gær.
Allt þetta leiddi til þess að tryggingafræðileg staða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna versnaði umtalsvert á síðasta ár. Hún er nú 4,2 prósent en var 8,7 prósent árið áður. Breytingarnar skýrast einkum á slakri ávöxtun síðasta árs og því að lífaldur sjóðsfélaga er að hækka.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er ásamt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR) stærsti lífeyrissjóður landsins. Greiðandi sjóðfélagar voru um 50 þúsund á síðasta ári og námu iðgjaldagreiðslur til sjóðsins um 25 milljörðum króna. Eignir sjóðsins nema nú um 602 milljörðum króna.
Um 22 prósent af eignum sjóðsins, 132,4 milljarðar króna, eru bundnar í innlendum hlutabréfum. Heildarvirði skráðra félaga í Kauphöll Íslands er oftast nær um eða yfir eitt þúsund milljarðar króna um þessar mundir og því ljóst að Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stór leikandi á því sviði. Sjóðurinn er á meðal stærstu hluthafa í Eik fasteignafélagi, Reitum, Símanum, HB Granda, N1, TM, VÍS, Fjarskiptum (Vodafone á Íslandi), Eimskip, Reginn, Högum, Nýherja, Icelandair og Marel. Eignaflokkurinn hefur gefið sjóðnum mjög góða ávöxtun á undanförnum árum, þ.e. þangað til í fyrra þegar raunávöxtun var neikvæð.
Mesta verðfallið hefur verið á hlutabréfum í Icelandair. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er stærsti einstaki hluthafi félagsins með14,7 prósent hlut. Markaðsvirði bréfa í Icelandair hefur lækkað um tæplega 110 milljarða króna frá því í apríl í fyrra, og er í dag um 83 milljarðar króna. Þegar markaðsvirði Icelandair lækkaði um 24 prósent á einum degi, eftir að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun, sendi Lífeyrissjóður verzlunarmanna frá sér tilkynningu. Í henni var bent á að meirihluti þess hlutafjár sem sjóðurinn á í Icelandair hafi verið keyptur árið 2010 á genginu 2,5, en það er nú 16,8 krónur á hlut.
Vegið kaupgengi allra hluta í Icelandair sé 3,7 og miðað við það sé virði hlutabréfanna enn meira en fjórfalt kaupvirði þeirra. „Þegar tekið hefur verið tillit til 1.523 mkr arðgreiðslna er raunávöxtun þessarar fjárfestingar frá 2010 til dagsins í dag 32,34 prósent, sem telst mjög góð afkoma.“