Uppfært klukkan 8:13
Samningar náðust í kjaradeilu sjómanna og útgerðarfyrirtækja á þriðja tímanum í nótt, að því er segir á mbl.is. Hafði samningafundur sjómanna og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi þá staðið yfir í Karphúsinu síðan klukkan 22 í kvöld.
Fundurinn hófst að loknum fundum deiluaðila með Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og starfsmönnum ráðuneytisins, þar sem ráðherra hafði lagt fram málamiðlunartillögu. Samningur sjómanna og útgerðarmanna byggir hins vegar ekki á tillögum Þorgerðar Katrínar.
Verkfall sjómanna hófst 14. desember og hefur því staðið yfir í meira en tvo mánuði. Því verður ekki aflýst strax heldur vilja samningamenn sjómanna að nýr kjarasamningur verði samþykktur í atkvæðagreiðslu meðal sjómanna áður en haldið verður aftur til veiða. Ráðgert er að niðurstöður úr atkvæðageiðslunni muni liggja fyrir ei síðar en á sunnudagskvöld.
Samkvæmt tilkynningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) náðist sátt um breytingu á olíuverðsviðmiði, endurgjaldslaust fæði, að útgerðir láti sjómönnum í té allan öryggis- og hlífðarfatnað, bætta framkvæmd í fjarskiptum, sérstaka kjaraskráruppbót og að heildarendurskoðun fari fram á samningunum á samningstímanum.
Félag vélstjóra og málmtæknimanna (VM) undirritaði samning við sama tilefni enda tók þátt í kjaraviðræðunum með sjómannahreyfingunni. Samningarnir eru hins vegar ekki þeir sömu.
Konráð Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands segir ekkert eitt hafa orðið til þess að samningar tókust. „Menn töluðu bara vel saman og náðu samningi,“ er haft eftir honum á vef RÚV. Hann segir tilboð ráðherra ekki hafa gengið nógu langt til þess að ríkið hafi getað orðið aðili að samningnum og þess vegna hafi útgerðin tekið stærri hluta á sig.
Mikill þrýstingur hefur verið á stjórnvöld undanfarna daga að gefa sjómönnum skattaafslátt af dagpeningum og fæðiskostnaði en ráðamenn höfðu ítrekað hafnað því að slíkt kæmi til greina. Þorgerður Katrín þakkaði sjómönnum og útgerðarmönnum fyrir á Twitter í nótt og sagði mönnum að drífa sig í að ná í loðnuna, enda fer hver að verða síðastur að veiða af loðnukvótanum áður en hún hrygnir og drepst.
Ríkið hefði sett lög, segir SFS
„Það er mikilvægt að við náðum samningi því við þurftum að eyða þessu sambandi sem hefur verið síðustu ár og áratugi þar sem kjarabarátta sjómanna hefur meira og minna alltaf endað í lögum,“ er haft eftir Jens Garðari Helgasyni í frétt á vef mbl.is.
Jens Garðar segir að þegar deiluaðilar áttuðu sig á því að stjórnvöld myndu ekki koma með lausn í deiluna sem hugnaðist sjómönnum og útgerð hafi allt kapp verið lagt á að klára samninga. Menn hafi haft á tilfinningunni að annars hefðu stjórnvöld sett lög á verkfallið, segir Jens Garðar. Engir afarkostir hafi hins vegar verið settir fram af hálfu sjávarútvegsráðherra. „Menn skynjuðu það mjög sterkt að yfirvöld væru að missa þolinmæðina fyrir því að við næðum saman,“ er haft eftir Jens Garðari.