Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, segir að yfirlýsing hans um það sem hefði gerst í Svíþjóð fyrir helgi hafi verið vísun í umfjöllun sem hafði verið sýnd á sjónvarpsstöðinni Fox News og fjallaði um innflytjendur og Svíþjóð. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Twitter sem forsetinn setti inn í gærkvöldi.
Í ræðu sem Trump hélt á fundi með stuðningsmönnum sínum í Flórída nefndi hann Svíþjóð, Þýskaland, París, Nice og Brussel sem dæmi um staði sem Bandaríkjamenn ættu að horfa á til að átta sig á hvers konar ástand væri í heiminum. Á öllum þessum stöðum, að Svíþjóð undanskildu, hafa verið framin hryðjuverk á undanförnum árum.
Svíar stóðu hins vegar eftir á gati og málið vakti mikla athygli á samfélagsmiðlum. Þar var gert stólpagrín að yfirlýsingu Trump, enda engin hryðjuverk framin í Svíþjóð á föstudag. Carl Bildt, fyrrverandi forsætisráðherra Svíþjóðar, spurði á Twitter hvað Trump hefði eiginlega verið að reykja.
Sænskum stjórnvöldum var ekki jafn skemmt og kröfðust svara. Margot Wallström, utanríkisráðherra Svíþjóðar, brást m.a. við með því að krækja inn á færslu um að „post truth“ hefur verið valið orð ársins af Oxford orðabókinni árið 2016. Hún setti einnig inn færslu á Twitter þar sem hún krækti inn í ræðu sem hún flutti í sænska þinginu í síðustu viku. Í ræðunni sagði Wallström að ríki þurfi að ræða við hvort annað, ekki bara um hvort annað, til að virða skuldbindingar og leyfa hugmyndum að keppa við hvora aðra. Virkt lýðræði og uppbyggileg samvinna milli ríkja feli einnig í sér að vísindi, staðreyndir og fjölmiðlar séu virt. Sömuleiðis að viska hvors ríkis fyrir sig sé viðurkennd.
Í tilkynningu sem Hvíta húsið sendi frá sér á vef sínum í gærkvöldi sagði að Trump hefði ekki verið að tala um sérstakt atvik í Svíþjóð heldur fjölgun afbrota og ýmissa atvika.
Nú er komið í ljós að Trump var að vísa til umfjöllunar sem hann sá á sjónvarpsstöðinni Fox News á föstudag.
Þá var sýnd umfjöllun sem innihélt m.a. viðtal við kvikmyndagerðarmanninn Ami Horowitz, sem heldur því fram að hluti innflytjenda sem Svíþjóð hafi tekið við hafi rík tengsl við glæpastarfsemi. Í umfjölluninni sagði Horowitz m.a. að Svíþjóð hafi orðið fyrir fyrstu hryðjuverkaárásinni af hendi múslímsk hryðjuverkamanns fyrir skemmstu og að landið sé að fá að finna fyrir því sem sé að eiga sér stað víða um Evrópu nú þegar. Horowitz sagði einnig að Svíar reyndu oft að fela tilvist þessara glæpa.
The Guardian telur að Horowitz hljóti að vera að vísa í sjálfsmorðsárás sem sænskur ríkisborgari, fæddur í Írak, framdi í Stokkhólmi árið 2010, ári áður en borgarastyrjöld brast á í Sýrlandi og Líbýu sem gerði það að verkum að gríðarlegu fjöldi fólks flúði miðausturlönd í leit að öryggi og betra lífi í Evrópu og víðar.
Ekki sýnileg glæpaalda með auknum flóttamannastraumi
Svíþjóð tók við 163 þúsund flóttamönnum árið 2015, sem var metfjöldi. Því hefur einnig verið haldið fram að glæpum í Svíþjóð hafi fjölgað mikið samhliða auknum flóttamannastraumi inn í landið. Í tölum sem sænsk stofnun sem einbeitir sér að glæpaforvörnum (e. The Swedish National Council for Crime Prevention) birti í janúar 2016 kom hins vegar fram að tilkynntum nauðgunum hefði fækkað um tólf prósent á milli áranna 2014 og 2015 og smáþjófnuðum um tvö prósent.
Í annarri úttekt stofnunarinnar sést að hótanir, áreitni, líkamsárásir og rán voru hlutfallslega færri í Svíþjóð árið 2014 en þau voru árið 2005. Kynferðislegar árásir og tilkynnt svik voru hlutfallslega eilítið fleiri. Heilt yfir hefur tíðni glæpa sem framdir eru í Svíþjóð lækkað frá árinu 2005.
Í umfjöllun vefmiðilsins thelocal.se frá því í febrúar 2016 sagði blaðafulltrúi sænsku lögreglunnar, Lars Byström, að hvorki ferðamenn né íbúar Stokkhólms ættu að finnast þeir vera í nokkurri hættu í borginni. Að hans mati væri borgin nokkuð örugg. Í niðurstöðum nýrrar rannsóknar, sem birtar voru í hinu virta fræðiriti Lancet, kom fram að Svíþjóð er í þriðja sæti í heiminum þegar kemur að því að uppfylla þau heilsumarkmið sem Sameinuðu þjóðirnar setja aðildarríkjum sínum. Þau snúast meðal annars um ofbeldi og félagsleg jafnræði.
Kjarninn birti Staðreyndavakt um yfirlýsingar um aukið ofbeldi í Svíþjóð vegna fjölgunar flóttamanna í aðdraganda síðustu þingkosninga hérlendis. Niðurstaða hennar var að yfirlýsingar þess efnis væru fleipur.