Áfengis er sjaldnar neytt á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum, en óhófleg drykkja er hins vegar nokkuð tíðari hér á landi. Þetta eru niðurstöður evrópskrar heilsufarsrannsóknar, sem Hagstofan tók þátt í.
Ísland er með sjöunda lægsta hlutfallið sem drekkur að minnsta kosti einu sinni í viku eða oftar, rétt rúmlega 20 prósent. Hæsta hlutfallið er í Bretlandi, 52,5 prósent.
Af Norðurlöndunum er hlutfallið hæst í Danmörku, rúmlega 51 prósent. Næst kemur Svíþjóð með tæplega 40 prósnet og Finnland með rúmlega 39 prósent. Noregur er með tæplega 33 prósent hlutfall þeirra sem drekka að minnsta kosti einu sinni í viku eða oftar.
Þegar litið er til þeirra sem drekka áfengi daglega er hlutfallið á Íslandi 0,6 prósent. Það er næstlægsta hlutfallið sem mælist, en hæst er hlutfallið í Portúgal, þar sem 24 prósent drekka daglega. Hlutfall þeirra sem drekka daglega er lágt á Norðurlöndunum, fyrir utan Danmörku, þar sem rúmlega ellefu prósent drekka daglega.
Tæplega 40 prósent drekka í hverjum mánuði
39 prósent Íslendinga drekka einu sinni í mánuði eða oftar, samkvæmt rannsókninni, sem er annað hæsta hlutfallið í Evrópu. Hæst er hlutfallið í Noregi, rúmlega 49 prósent. Hlutfall Íslendinga sem drekka sjaldnar en einu sinni í mánuði er líka fremur hátt, 22 prósent. „Þessar niðurstöður benda til þess að tíðni drykkju sé hófleg á Íslandi í samanburði við aðrar Evrópuþjóðir og í samanburði við hin Norðurlöndin. Það segir þó ekkert til um magn áfengis sem er neytt,“ segir Hagstofan.
Hlutfall óhóflegrar drykkju er 42 prósent á Íslandi, sem er það fjórða lægsta í Evrópu. Lægsta hlutfall óhóflegrar drykkju er í Danmörku, 27,5 prósent, en í Finnlandi (37%) og Þýskalandi (40%) er einnig lægra hlutfall en á Íslandi. Óhófleg drykkja er skilgreind sem neysla á 60 grömmum af hreinum vínanda í einni setu. Það jafngildir þremur stórum bjórum eða fimm vínglösum.
Ísland er hins vegar með annað hæsta hlutfall þeirra sem neyta þetta mikils magns af áfengi sjaldnar en einu sinni í mánuði, og fjórða hæsta hlutfallið sem drekkur þetta magn nokkrum sinnum í mánuði. Tæplega 32 prósent drekka svona mikið sjaldnar en einu sinni í mánuði og 24 prósent nokkrum sinnum í mánuði. Rúmlega tvö prósent drekka óhóflega í hverri viku, sem er vel undir meðaltali ESB, sem er rúmlega fimm prósent.