Smíði hófst á 922 nýjum íbúðum í Reykjavík í fyrra, svipaður fjöldi og árið 2015. Undanfarin tvö ár eru 50% yfir meðaltali fjölda íbúða sem hafin er smíði á, segir í nýrri ársskýrslu byggingarfulltrúans í Reykjavík.
Í ljósi þess að byggingartími nýrra íbúða er um tvö til þjrú ár má gera ráð fyrir því að fullgerðum íbúðum muni fjölga mikið á þessu ári og næstu tvö árin, að mati Reykjavíkurborgar. Umhverfis- og skipulagssvið borgarinnar segir um 1.800 íbúðir í uppbyggingu í dag. Samkvæmt því sem borgin greindi frá í lok síðasta árs er áætlað að 3.300 íbúðir vanti til að mæta þörf á húsnæði í Reykjavík.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði á uppbyggingarfundi í ráðhúsinu í október síðastliðnum að uppbyggingin framundan í Reykjavík endurspeglaði þörfina að miklu leyti, en að það þyrfti einfaldlega að byggja meira. „„Nú þegar eru 5.500 íbúðir í samþykktu deiliskipulagi, af þeim eru um 2.000 í uppbyggingu. Um 4.000 íbúðir eru í deiliskipulagsferli og um 8.000 í þróun þannig að við sjáum fram á að geta annað þeirri eftirspurn innan fárra ára – enda sýna kannanir það að flestir vilja búa í Reykjavík.“
Merki um ofhitnun og markaður að þorna upp
Arion banki birti nýlega skýrslu sína um íbúðamarkaðinn, þar sem fram kom að byggja þarf að minnsta kosti átta þúsund íbúðir á næstu þremur árum til þess að halda í við fólksfjölgun og mæta þeirri eftirspurn sem hefur safnast upp á undanförnum árum. Greiningardeild bankans telur ólíklegt að það náist að byggja svo mikið.
p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 20.0px 0.0px; font: 18.0px Times; -webkit-text-stroke: #000000} span.s1 {font-kerning: none}
Í skýrslunni kemur fram að húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað um 15 prósent á árinu 2016 og að sú hækkun hafi að mestu verið drifin áfram af hagstæðu efnahagsástandi, fólksfjölgun, kaupmáttaraukningu, góðu aðgengi að fjármögnun og því að of lítið hafi verið byggt af íbúðum á undanförnum árum. Greiningardeildin spáir því að húsnæðisverð hækki um 14 prósent á árinu 2017, um 9,7 prósent árið 2018 og 7,5 prósent árið 2019. Gangi spáin eftir er útlit fyrir að húsnæðisverð hækki talsvert umfram flestrar undirliggjandi hagstærðir á borð við kaupmátt ráðstöfunartekna. Þegar glitti í gul ljós á sumum svæðum þar sem verð hefur hækkað sérstaklega mikið og til lengri tíma varar greiningardeildin í niðurstöðum sínum við ofhitnun á markaðinum.
Sigurður Jón Björnsson, framkvæmdastjóri fjárstýringar Íbúðalánasjóðs, fjallaði einnig um þörfina fyrir nýtt húsnæði á nýlegum fundi sjóðsins. Þar sagði hann meðal annars að það væru skýr merki um að framboð eigna á húsnæðismarkaði væru við það að þorna upp. Eignir seljist nú oft á sýningardegi sem sé óeðlilegt ástand. Sigurður sagði enn fremur að miðað við fjölda íbúða í landinu, og að níu til tíu prósent þeirra skipti um hendur á ári og fjögurra mánaða veltuhraða, þá ættu þrjú þúsund íbúðir að vera til sölu í dag. Talan sé hins vegar nær eitt þúsund. Þetta geti verið merki um ofhitun og Sigurður sagði að almenningur ætti að stíga varlega til jarðar.
p.p1 {margin: 0.0px 0.0px 0.0px 0.0px; font: 18.0px Times; -webkit-text-stroke: #000000} span.s1 {font-kerning: none}