Kjararáð hefur í fyrsta skipti síðan ríkið eignaðist Íslandsbanka úrskurðað um laun bankastjóra bankans, Birnu Einarsdóttur, og lækka þau um 40 prósent en samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka voru þau um 3,6 milljónir.
Samkvæmt úrskurði ráðsins, verða laun hennar rúmar tvær milljónir með yfirvinnu og álagi sem fylgir starfinu, en í ákvörðunarorðum sínum er vitnað til innbyrðis samræmis sem þurfi að vera fyrir hendi þegar laun sem kjararáð ákvarðar eru annars vegar og vitnað meðal annars til launa bankastjóra Landsbanka Íslands í því samhengi.
Mögulega munu laun Birnu taka aftur breytingum þann 1. júlí næstkomandi. Þá taka gildi ný lög um kjararáð. Samkvæmt þeim flyst ákvörðunarvald um laun bankastjórans aftur frá kjararáði til stjórnar bankans.
Í úrskurði Kjararáðs kemur fram, að Birna hafi sent bréf 9. september 2016 í fyrra, þar sem hún fjallaði um störf sín fyrir Íslandsbanka. „Í bréfinu
kemur fram að Íslandsbanki og bankastjórinn hafi hlotið fjölmörg verðlaun á síðustu árum
fyrir framúrskarandi stjórnun, rekstur, þjónustu og mannauðsmál. Í fjögur ár í röð hafi
Íslandsbanki verið valinn besti bankinn á Íslandi af alþjóðlega fjármálatímaritinu Euromoney.
Í niðurstöðu dómnefndar hafi verið horft til góðs árangurs í rekstri bankans og stefnu hans
almennt. Þá hafi einnig verið litið til framtíðarsýnar Íslandsbanka um að veita bestu
bankaþjónustu á Íslandi og árangurs bankans í nýsköpun með það að markmiði að einfalda
bankaviðskipti. Ánægja viðskiptavina Íslandsbanka hafi mælst mikil og hafi bankinn hlotið
hæstu einkunn banka í Íslensku ánægjuvoginni undanfarin þrjú ár. Þá hafi Íslandsbanki hlotið
Hvatningarverðlaun jafnréttismála í ár. Niðurstaða dómnefndar hafi verið einróma og þyki
bankinn uppfylla þætti bæði í innra og ytra umhverfi fyrirtækisins sem stuðli að auknu
jafnrétti. Verðlaunin séu veitt því fyrirtæki sem hafi stuðlað að auknum möguleikum beggja
kynja til starfsframa, jöfnum launum kynjanna í stjórnendastöðum og aukinni vitund um þann
ávinning sem jafnrétti hafi fyrir fyrirtækið og samfélagið,“ segir í úrskurðinum.
Þá er einnig vitnað til bréfs stjórnar Íslandsbanka, þar sem Birna er sögð hafa skilað framúrskarandi störfum fyrir bankann, og að hann hafi mikinn hag að því að geta boðið samkeppnishæf laun sem séu í takt við markaðinn hverju sinni.
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur á samningi Birnu er tólf mánuðir og láti bankastjóri af störfum að eigin ósk eru settar hömlur á atvinnustarfsemi hans næstu sex mánuði, að því er fram kemur í bréfi stjórnarinnar.
Kjararað rökstyður ákvörðun sína, með eftirfarandi hætti:
„Í 8. gr. laga um kjararáð segir að það skuli við úrlausn mála gæta innbyrðis samræmis í starfskjörum þeim sem það ákveður, og að þau séu á hverjum tíma í samræmi við laun í þjóðfélaginu hjá þeim sem sambærilegir geta talist með tilliti til starfa og ábyrgðar. Við ákvörðun sína skal kjararáð gæta þess að föst laun fyrir dagvinnu, annarra en forseta Íslands, verði ekki hærri en föst laun forsætisráðherra samkvæmt 3. gr. Við ákvörðun launakjara samkvæmt 4. gr. laganna skuli sérstaklega gæta samræmis milli þeirra og þeirra kjara hjá ríkinu sem greidd eru á grundvelli kjarasamninga annars vegar og ákvarðana kjararáðs samkvæmt 3. gr. hins vegar. Þá skuli kjararáð ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.
Í 10. gr. laganna segir að ráðið skuli taka mál til meðferðar þegar því þyki þurfa og ætíð ef orðið hafa verulegar breytingar á þeim launum í þjóðfélaginu sem höfð skulu til viðmiðunar samkvæmt lögunum eða á störfum þeirra sem úrskurðarvald ráðsins tekur til. Kjararáð hefur ekki áður ákveðið bankastjóra Íslandsbanka hf. laun. Með vísan til þess innbyrðis samræmis sem kjararáði ber að hafa að leiðarljósi og áður er gerð grein fyrir er við ákvörðun launakjara bankastjóra Íslandsbanka hf. horft til launakjara forstöðumanna annarra fjármála- og lánastofnana sem undir kjararáð heyra, svo sem bankastjóra Landsbankans hf. Með hliðsjón af framansögðu hefur kjararáð ákveðið að laun bankastjóra Íslandsbanka hf. skuli vera sem segir í ákvörðunarorði.
Ákvörðunarorð
Mánaðarlaun bankastjóra Íslandsbanka hf. skulu vera samkvæmt launaflokki 502-141, nú 1.131.816 krónur. Að auki skal greiða honum 100 einingar á mánuði fyrir alla yfirvinnu og álag er starfinu fylgir. Kjararáð 2017.4.003 5 Eining er 1% af launaflokki 502-136, nú 9.572 krónur.
Einingar greiðast alla mánuði
ársins, einnig í sumarleyfi. Af því leiðir að ekki er greitt orlofsfé á einingar.
Laun eru miðuð við fullt starf þannig að ekki komi til frekari greiðslna nema kjararáð
úrskurði um það sérstaklega.
Um almenn starfskjör bankastjóra Íslandsbanka hf. gilda reglur kjararáðs um starfskjör
framkvæmdastjóra félaga sem eru að meirihluta í eigu ríkissjóðs og dótturfélaga þeirra frá 17.
nóvember 2015.“
Undirrita þau Óskar Bergsson, Hulda Árnadóttir og Svanhildur Kaaber, frá Kjararáði.