Pressan ehf. hefur tekið formlega við tímaritaútgáfunni Birtingi, sem gefur út ýmis tímarit, meðal annars Séð og Heyrt og Nýtt líf. Félagið er nú eigandi alls hlutafjár í Birtingi. Greint var frá því í lok nóvember að kaupin stæðu yfir og nú hefur verið gengið formlega frá yfirtöku nýrra eigenda. Við söluna bætast fyrrverandi hluthafar Birtings, þeir Hreinn Loftsson, Matthías Björnsson og Karl Steinar Óskarsson, í hluthafahóp Pressunnar. Ekki hefur verið greint frá því hversu stór eignarhlutur þeirra verður.
Aðaleigendur Pressunnar eru Björn Ingi Hrafnsson, útgefandi miðla Pressunnar, og Arnar Ægisson, framkvæmdastjóri félagsins. Þeir áttu samtals rúmlega 70 prósent í Pressunni fyrir samrunann við Birting.
Pressan ehf. hefur verið umsvifamikil á fjölmiðlamarkaði á undanförnum árum. Fyrirtækið keypti m.a. DV seint á árinu 2014 og rekur auk þess fjölda vefa og vikublaða. Þeirra á meðal eru Pressan, Eyjan, DV.is og Bleikt.is. Í haust bættust sjónvarpsstöðin ÍNN og nú tímaritaútgáfan Birtingur við eignasafn Pressunnar.
Í fréttatilkynningu frá Pressunni vegna yfirtökunnar á Birtingi segir að á hluthafafundi hafi ný stjórn Birtíngs kjörin og í henni sitja Björn Ingi Hrafnsson stjórnarformaður, Matthías Björnsson og Sigurvin Ólafsson. Karl Steinar Óskarsson verður áfram framkvæmdastjóri Birtíngs. „Á fundi með starfsmönnum Birtíngs kynntu forsvarsmenn Pressunnar sýn sína á möguleika tímarita Birtíngs og var samdóma álit fundarmanna að miklir möguleikar felist í sókn með nýrri tækni á netinu og á samskiptamiðlum, auk hefðbundinnar útgáfu tímaritanna. Fram kom í máli Björns Inga Hrafnssonar, nýs útgefanda Birtíngs, að gert er ráð fyrir að Séð og heyrt og Nýtt líf hefji fljótlega göngu sína að nýju, en bæði tímaritin hafa verið í útgáfuhléi frá áramótum. Á næstunni verði kynntar margvíslegar aðgerðir til að sækja fram í útgáfu á vegum samstæðunnar, en Pressan og einstök dótturfélög hennar gefa nú út tæplega þrjátíu fjölmiðla hér á landi.“
Pressan er eitt umsvifamesta fjölmiðlafyrirtæki landsins. Það skilaði ellefu milljóna króna hagnaði á árinu 2015 samkvæmt nýbirtum ársreikningi þess. Skuldir samstæðunnar jukust að að sama skapi úr 272 milljónum króna í 444 milljónir króna á árinu. Þær hafa rúmlega sexfaldast frá árinu 2013. Ekki kemur fram hverjir lánveitendur Pressunnar eru og stjórnendur félagsins hafa ekki viljað upplýsa um það.