Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku banka, neitar því að bankinn sem hann stýrir hafi að nokkru leyti unnið markvisst að því að lækka bréf í Icelandair á síðustu viku. Þetta kemur fram í viðtali við hann í Viðskiptablaðinu í dag.
Bréf í Icelandair tóku skarpa dýfu í lok janúar síðastliðnum í kjölfar þess að félagið sendi frá sér afkomuviðvörun. Alls hafa hlutabréf í félaginu lækkað um 30 prósent frá 25. janúar og um 58 prósent frá því í apríl 2016.
Innan Icelandair telja stjórnendur, samkvæmt upplýsingum Kjarnans, að dýfan hafi verið allt of mikil miðað við hver staða félagsins er og orðrómur hefur verið á markaði um að einhverjir hafi beitt sér sérstaklega fyrir því að lækka virði bréfa í Icelandair í viðskiptalegum tilgangi. Á meðal þeirra sem oftast eru nefndir í því samhengi er Kvika banki.
Sigurður Atli hafnar því alfarið í Viðskiptablaðinu í dag að fótur sé fyrir þeim orðrómi. „Sem fjárfestingabanki og leiðandi aðili í markaðsviðskiptum sinnum við auðvitað heilmiklu af hlutabréfaviðskiptum í þeim félögum sem skráð eru á markað. Það eru alltaf jafnmiklar fjárhæðir á bak við kaup og sölu og það er enginn fótur fyrir því að við höfum unnið gegn félaginu með skipulögðum hætti, enda væri það ólöglegt. Það er mjög eðlilegt að gengi hlutabréfa hreyfist á mörkuðum, þar spila væntingar fjárfesta inn í. Okkur hafa ekki borist neinar ásakanir hingað til og alls ekki frá félaginu sem slíku. Þarna er eitthvað úr lausu lofti gripið.“
Hann segir mögulegt sé að ráðgjöf Kviku til viðskiptavina sinna á einhverjum tímapunkti hafi verið sú að selja frekar bréf í Icelandair en að kaupa. Það hafi hins vegar bara verið mjög góð ráðgjöf í ljósi niðurstöðunnar.
Valdabarátta framundan á aðalfundi
Mikil valdabarátta á sér stað innan Icelandair sem stendur og talið er mjög líklegt að reynt verði að hrista upp í stjórn félagsins á komandi aðalfundi, sem fram fer 3. mars. Í Fréttablaðinu í dager greint frá því að hópur einkafjárfesta, sem samanstendur meðal annars af viðskiptafélögunum Finni Reyr Stefánssyni og Tómasi Kristjánssyni, eigi nú um 1,5 prósent hlut í Icelandair og hyggist tefla Ómari Benediktssyni, fyrrverandi framkvæmdastjóra Air Atlanta og SmartLynx í Lettlandi, fram til stjórnarkjörs á aðalfundinum. Kvika hafði milligöngu um kaup þeirra á bréfum í Icelandair á síðustu dögum.
Þessi hópur leitar nú stuðnings annarra hluthafa við framboð Ómars til stjórnarinnar. Samkvæmt viðmælendum Kjarnans er vilji hjá hluta fjárfesta í Icelandair að skipta út Sigurði Helgasyni úr stóli stjórnarformanns Icelandair og Katrínu Olgu Jóhannesdóttur, sem setið hefur í stjórninni frá árinu 2009.
Í nýju verðmati sem Greiningardeild Arion banka hefur unnið um Icelandair, og Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram það mat að bréf í félaginu séu undirverðlögð. Gengi bréfanna eru sem stendur 16,3 krónur á hlut en Arion banki telur virði þeirra vera 19 krónur á hlut.