Nærri helmingur Íslendinga, eða 45 prósent, telur að hæfilegum fjölda flóttamanna sé veitt hæli hér á landi eins og staðan er í dag, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. 30,9 prósent svarenda tölu að ekki nógu margir fái hæli hér á landi en 24,1 prósent töldu of mikinn fjölda flóttamanna fá hæli hér á landi.
Hærra hlutfall karla er þeirrar skoðunar að of margir fái hér hæli, en 28 prósent karla eru þeirrar skoðunar en 20 prósent kvenna. Karlar eru einnig líklegri til að þykja of fáir fái hér hæli, en 32 prósent karla eru þeirrar skoðunar, en 30 prósent kvenna. Konur voru töluvert líklegri en karlar til að telja að hæfilega margir flóttamenn fái hér hæl, 50 prósent á móti 40 prósent.
Það er einnig munur á skoðunum fólks eftir aldri, menntun og stjórnmálaskoðunum. Þannig var yngra fólk líklegra en eldra til að telja of fáa flóttamenn fá hæli hér á landi, en fólk á aldrinum 50 til 67 ára var líklegast til að telja of marga flóttamenn fá hæli hér á landi, eða 35 prósent. 68 ára og eldri voru líklegust til þess að telja fjölda flóttamanna sem fá hæli hæfilegan.
Helmingur þeirra sem höfðu háskólapróf töldu að of fáir flóttamenn fái hér hæli, samanborið við 26 prósent þeirra sem hafa framhaldsskólapróf og 15 prósent þeirra sem hafa grunnskólamenntun. 38 prósent þeirra sem hafa grunnskólapróf töldu að of margir flóttamenn fái hér hæli, en 27 prósent þeirra sem hafa framhaldsskólapróf og 9 prósent þeirra sem eru með háskólamenntun.
Stuðningsmenn Pírata eru líklegastir til að telja að of fáir flóttamenn fái hæli, 57 prósent. Aðeins sjö prósent kjósenda Framsóknarflokksins og átta prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru þeirrar skoðunar, en stuðningsmenn þessara flokka voru líklegastir til þess að telja að of mörgum flóttamönnum sé veitt hér hæli, 36 og 34 prósent. Jafnframt voru stuðningsmenn þessara flokka líklegastir til að telja fjölda flóttamanna hérlendis hæfilegan.