74,3 prósent Íslendinga eru mótfallnir því að sterkt áfengi verði selt í matvörubúðum og 56,9 prósent eru mótfallin sölu á á léttu áfengi og bjór í slíkum búðum. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Aðeins 15,4 prósent svarenda sögðust fylgjandi því að sterkt áfengi væri selt í matvörubúðum en 32,7 prósent sögðust hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór í búðum.
Konur eru almennt líklegri en karlar til að vera á móti sölu sterks áfengis í matvöruverslunum. 70 prósent kvenna sögðust vera mjög andvígar því, en 58 prósent karla. 14 prósent karla voru mjög hlynntir sölu á sterku áfengi í búðum en aðeins fimm prósent kvenna.
Andstaðan við sölu sterks áfengis eykst með aldrinum, en í aldurshópnum 18 til 29 ára var hlutfall þeirra sem eru mjög á móti sölu sterks áfengis í búðum 46 prósent, á meðan hlutfallið er 81 prósent hjá 68 ára og eldri. Stuðningsmenn VG eru hvað líklegastir til að vera á móti sölu sterks áfengis í búðum, 89 prósent þeirra eru andvíg. Minnst andstaða var hjá stuðningsmönnum Pírata, 55 prósent, Sjálfstæðisflokks, 65 prósent, og Bjartrar framtíðar, 65 prósent.
Sama er uppi á teningnum þegar kemur að sölu létts áfengis og bjórs í búðum, 50 prósent kvenna eru því mjög andvígar en 43 prósent karla. 28 prósent karla eru mjög hlynntir slíkri sölu en 13 prósent kvenna.
Ungt fólk á aldrinum 18 til 29 ára skiptist í tvo jafnstóra hópa þegar kemur að bjór og léttu áfengi í búðir, 43 prósent sögðust hlynnt en 42 prósent andvíg. Andstaðan jókst með hækkandi aldri og í elsta aldurshópnum voru 61 prósent andvíg en 28 prósent hlynnt.
Stuðningsmenn Viðreisnar eru hlynntastir sölu á léttu áfengi og bjór í matvöruverslunum, eða 58 prósent. Af stuðningsmönnum Bjartrar framtíðar voru 49 prósent hlynnt sölu bjórs og léttvíns í búðum og 48 prósent Pírata. 40 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins vilja að bjór og léttvín sé selt í búðum.
Einungist 19 prósent stuðningsmanna VG voru hlynnt sölu á bjór og léttu áfengi í matvörubúðum.