„Við erum að sjálfsögðu ánægð með niðurstöðu Hæstaréttar. Á sama tíma er þungbært að horfa upp á að þessi grundvallarmannréttindi hafi verið brotin á fólki fyrir héraðsdómi,“ segir Kristín Edwald, verjandi Magnúsar Guðmundssonar í Marple-málinu, í viðtali við Morgunblaðið og mbl.is.
Eins og fram kom í gær þá var Ásgeir Brynjar Torfason, lektor í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, dæmdur vanhæfur til að dæma sem meðdómari í Marple-málinu svokallaða, og verður málið því tekið aftur til aðaðmeðferðar í héraði.
Hann var dæmdur vanhæfur, meðan annars eftir að hafa talað „bankabófa“ í viðtali árið 2011 og það lýsti afstöðu hans til stjórnenda íslensku bankanna að mati Hæstaréttar Íslands. Þetta er meðal ástæðna þess að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í dag að Ásgeir Brynjar hefði verið vanhæfur til að vera meðdómsmaður í Marple-málinu svokallaða, þar sem fyrrverandi stjórnendur Kaupþings eru meðal sakborninga.
Því þarf að taka málið aftur fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur, eins og áður sagði, en hann hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að þeir Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings, og Skúli Þorvaldsson fjárfestir skyldu dæmdir í sex mánaða fangelsi og að Magnús Guðmundsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í Lúxemborg, skyldi dæmdur í 18 mánaða fangelsi.
Héraðsdómur sýknaði Guðnýju Örnu Sveinsdóttur, fyrrverandi fjármálastjóra bankans. Málið snýst um tilfærslu á um átta milljörðum króna úr sjóðum Kaupþings til félagsins Marple Holding, í eigu Skúla. Málið var höfðað á þeim forsendum að þetta hefði verið gert án þess að lögmætar viðskiptalegar ákvarðanir lægju þar að baki.
Verjendur sakborninga týndu ýmis ummæli Ásgeirs Brynjars, meðal annars á bloggi Egils Helgasonar, og deilingar á samfélagsmiðlum til máli sínu til stuðnings. Þá var einnig fundið að því að hann væri stjórnarmaður í félaginu Gagnsæi, samtökum gegn spillingu.