Skráning olíufélagsins Aramco á markað verður söguleg, en Sádí-Arabar halda því fram að fyrirtækið sé virði tvö þúsund milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 220 þúsund milljörðum króna. Takist þeim að sannfæra fjárfesta, einkum stærstu fjárfestingasjóði heimsins, um að þetta sé sanngjarn verðmiði þá verður fyrirtækið langsamlega stærsta skráða fyrirtæki heimsins.
Á vef Bloomberg birtist í gær fréttaskýring þar sem segir að ekki sé víst að þetta markmið náist, og raunar fjarri því. Þvert á móti hafi sérfræðingar Wood McKenzie Ltd. í Skotlandi, komist að því að verðmiðinn á meginstarfsemi fyrirtækisins, sem er framleiðsla og sala á olíu, sé virði um 400 milljarða Bandaríkjadala. Ef svo yrði raunin myndi fyrirtæki verða sjötta stærsta skráða félag í heiminum, eins og mál standa nú.
Verðmætasta félag í heiminum er nú Apple en verðmiðinn á því er 719 milljarðar Bandaríkjadala. Þar á eftir kemur Google með verðmiða upp á 581 milljarð Bandaríkjadala, Microsoft upp á 497 milljarða Bandaríkjadala, Berskhire Hathaway upp á 418 milljarða Bandaríkjadala og Amazon upp á 408 milljarða Bandaríkjadala.
Í fréttaskýringu Bloomberg kemur fram að efasemdaraddir um hvernig staðið er að skráningu hins risavaxna olíufyrirtækis hafi farið vaxandi. Heimildarmaður Bloomberg, sem ekki vill láta nafns síns getið, segir að fjárfestar horfi til þess að mikið af lausafé fyrirtækisins geti farið í greiða skatta.
Ítarlegar upplýsingar um fyrirtækið hafa ekki verið gerðar opinberar ennþá, en vitað er að fyrirtækið á gríðarlegar eignir og vinnsluréttindi í olíuauðlindum Sádí-Arabíu eru einnig mikil verðmæti til langrar framtíðar litið.