Hagkerfi Indlands, með 1,3 milljarða íbúa, óx um sjö prósent á síðasta ársfjórðungi ársins 2016 og er sá vöxtur langtum meiri en spár sérfræðinga gerðu ráð fyrir 6,4 prósent hagvexti að meðaltali, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.
Indland er næstfjölmennasta ríki heims á eftir Kína, þar sem íbúar eru um 1,4 milljarðar. Í þessum tveimur löndum búa því 2,7 milljarða manna af um 7,1 milljarða íbúa heildarfjölda.
Flest bendir til þess að Indland verði orðið fjölmennasta ríki heimsins innan fimmtán ára.
Það er hins vegar ekki einungis fólksfjölgunin sem er að knýja áfram hagvöxtinn í landinu, heldur mikil innri breyting og stækkun millistéttarinnar. Talið er að millistéttin í landinu vaxið um sem nemur um 30 milljónir manna á ári, eða sem nemur ríflega öllum íbúðum Norðurlandanna, þar sem íbúar eru um 25 milljónir.
Verðmætasta fyrirtæki heimsins, Apple, tilkynnti um það í lok síðasta árs að það ætlaði sér að einblína á markaðssetningu og starfsemi í Indlandi á næstu árum, og aðra minni hávaxtarmarkaði, ekki síst í Asíu. Þar væri vöxturinn mestur og erindi Apple augljóst, eins og Tim Cook, forstjóri, komst að orði. Apple er nú metið á 719 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur ríflega 80 þúsund milljörðum króna.
Margt í Indlandi er þó með nokkrum ólíkindum, þegar kemur að hagstærðum. Í frétt BBC segir að um 40 prósent af hagkerfinu sé skilgreint sem óskipulagður hluti og óskráður. Þetta á meðal annars við um svarta hagkerfið en einnig vinnu sem seld er úr landi, og er hvergi skráð. Stjórnvöld á Indlandi standa nú í átaki til að ná betri upplýsingum um stöðu mála og til að styrkja hagstjórnina, og ráðast í varanlegar úrbætur.