Bandarísk stjórnvöld, með Donald J. Trump Bandaríkjaforseta í broddi fylkingar, ætla sér að auka fjárútlát til Bandaríkjahers um 54 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega sex þúsund milljörðum króna, en skera niður um svipaða upphæð í öðrum málaflokkum, eins og þróunaraðstoð og umhverfismálum.
Frá þessu greindi Trump á blaðamannafundi í gær, en aukningin mun að mestu koma til á næsta ári. Heildarframlög til Bandaríkjahers fara í tæplega 600 milljarða Bandaríkjadala með aukningunni, en Trump sagði að með þessari aukningu yrði öryggið sett á oddinn. „Við ætlum að gera meira fyrir minna,“ sagði Trump.
Ekki liggur fyrir hvernig niðurskurðurinn verður útfærður, að því er fram kemur í umfjöllun Washington Post, en markmiðið með þessar aðgerð er að skerpa á stefnu Trumps, um að Bandaríkin séu í forgangi (American First), og að skorið verði niður í svo til öllum öðrum málaflokkum á móti.
Demókratar hafa mótmælt þessum áformum og sagt að niðurskurðurinn í hinum ýmsu verkefnum muni að lokum grafa undan störfum víða um Bandaríkin og dýpka félagsleg vandamál.
Yfir 120 hershöfðingjar og aðmírálar í her og flota Bandaríkjanna hvetja Donald Trump, Bandaríkjaforseta, og leiðtoga á Bandaríkjaþingi, til að láta það ógert að skerða fjárveitingar til þróunarhjálpar og milliríkjasamskipta til að vega upp á móti auknum útgjöldum til hernaðarmála, að því er segir á vef CNN.
Þeir David Petraeus, fyrrverandi hershöfðingi og forstjóri leyniþjónustunnar, CIA, og James Stavridis, fyrrverandi aðmíráll og yfirhershöfðingi Atlantshafsbandalagsins eru á meðal þeirra fjölmörgu, háttsettu yfirmanna í her, flugher og flota Bandaríkjanna sem skrifa undir áskorun til forsetans um að hætta við boðaðan niðurskurð á þessum sviðum.
Þeir telja að niðurskurðurinn muni grafa undan öryggi í heiminum og auka á hættuna á því að ófriður brjótist út.