WOW air hagnaðist um 4,3 milljarða króna í fyrra. Tekjur félagsins jukust um 111 prósent á milli ára, úr 17 milljörðum króna í 36,7 milljarða króna.
Farþegum sem flugu með WOW air fjölgaði um 130 prósent milli ára og voru tæplega 1,7 milljónir í fyrra. Félagið gerir ráð fyrir að fljúga með um þrjár milljónir farþega á árinu 2017. Heildarsætanýting var betri í fyrra en árið áður, fór úr 86 prósent í 88 prósent. WOW air flaug til yfir 30 áfangastaða á árinu 2016.
Í fréttatilkynningu frá WOW air kemur fram að félagið hafi á síðasta ári bætt sjö þotum við flotann og var með tólf þotur í rekstri í lok ársins; tvær Airbus A320, þrjár Airbus A330 breiðþotur og sjö Airbus A321. Fjórar af þessum þotum eru í eigu félagsins. Í ár mun WOW air bæta við sig fimm glænýjum Airbus þotum og verður þá floti félagsins orðinn 17 þotur. Á síðasta ári störfuðu um 720 manns hjá WOW air sem er 157 prósent starfsmannaaukning frá árinu áður en árið 2015 störfuðu 280 manns hjá félaginu. Í ár, 2017 er gert ráð fyrir að starfsmannafjöldi félagsins verði um 1100 manns.
Skúli Mogensen, forstjóri og eigandi WOW air, segir að árið 2016 hafi verið magnað í alla staði. „Við fórum af stað með háleit markmið um mikla stækkun á öllum sviðum og það er búið að vera óheyrilega gaman að vinna með öllu okkar frábæra starfsfólki við að ná tilsettum markmiðum og gott betur. Þetta er þeirra sigur. Að sama skapi er ljóst að samkeppnin til og frá Íslandi sem og yfir hafið hefur aldrei verið meiri.Við höfum aldrei verið jafn vel í stakk búin að takast á við þessar áskoranir og munum halda áfram að lækka fargjöld öllum til hagsbóta.“