Jeff Sessions, dómsmálaráðherra Bandaríkjanna, var í tvígang í sambandi við sendiherra Rússlands í Bandaríkjunum á síðasta ári. Frá þessu var greint á vef Boston Globe í dag, og í kjölfarið á öllum helstu fjölmiðlum, en áður hafði Sessions greint þingnefnd Bandaríkjaþings frá því að hann hefði ekki verið í sambandi við Rússa eða embættismenn á vegum stjórnvalda í Rússlandi, í aðdraganda kosninganna sem fóru fram 8. nóvember í fyrra.
Fram kemur að gögn frá starfsmönnum leyniþjónustustofnanna Bandaríkjanna sýni að Sessions hafi átt fundi með Sergey Kislyak, sendiherra, og fór síðari fundurinn fram í september á skrifstou Sessions. Tölvuárásir rússneskra hakkara voru búnar að eiga sér stað á framboð Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrata í forsetakosningunum, og leiddu þær meðal annars til þess að tölvupóstar Hillary voru birtir opinberlega.
Fyrri fundur Sessions var í júlí, og voru fundirnir báðir einkafundir hans með sendiherranum. Skömmu áður en Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hætti vísaði hann öllum rússneskum erindrekum úr landi sem tengdust rússneska sendiráðinu, þar með talið sendiherranum.
Dómsmálaráðuneytið hefur staðfest að fundir hafi átt sér stað, en ekkert óeðlilegt hefði verið rætt á fundunum eða þeir verið hluti af ráðabruggi milli framboðs Donalds Trumps og Rússa.
New York Times greindi frá því í gær að fólk úr starfsliði Obama hefði safnað saman gögnum um tengingar aðila úr innsta hring í framboði Donalds Trumps við Rússa, og komið þeim til réttra aðila innan kerfisins. Ástæðan fyrir því að þetta var gert, var meðal annars vegna ótta við það, að gögnum yrði eytt eða ekkert gert með þau.
Greinilegt er að upplýsingar sem lágu að baki þeirri ákvörðun tengjast fundum rússneskra embættismanna bandarískum þingmönnum og fleirum. Á meðal þeirra sem átti fundi með Kislyak var Michael Flynn, sem var skipaður aðalráðgjafi Bandaríkjanna í öryggis- og varnarmálum. Þegar upp komst að hann hefði sagt Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna ósatt um hvort hann hefði rætt við sendiherra Rússa, og þá sérstaklega um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum, þá sagði hann af sér.
Rannsókn er nú í gangi á vegum leyniþjónustunnar CIA og alríkislögreglunnar FBI þar sem tengsl Rússa við tölvuárásir á Bandaríkin í aðdraganda kosninganna eru til skoðunar, og sömuleiðis tengsl Rússa við þingmenn og embættismenn innan Bandaríkjanna.
Sessions er sem dómsmálaráðherra yfirmaður FBI en hann hefur ítrekað sagt, að hann telji ekki þörf á því að hann víki sem ráðherra, á meðan á rannsókn stendur.