Stöðugildum í Stjórnarráðinu fækkaði um 85 frá árinu 2007 og til ársins 2015. Skrifstofustjórum í Stjórnarráðinu hefur einnig fækkað mikið, og ráðuneytisstjórum sömuleiðis. Þetta kemur fram í svari Benedikts Jóhannessonar fjármála- og efnahagsráðherra við skriflegri fyrirspurn Óla Björns Kárasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Stöðugildi innan Stjórnarráðsins urðu mest 570 árið 2007, en þeim hafði fjölgað jafnt og þétt árin þar á undan. Árið 2008 fór fjöldi stöðugilda niður í 504, en þeim fjölgaði upp í 532 árið 2012. Síðan þá hefur fækkað á nýjan leik, í 484 stöðugildi árið 2015. Ekki eru birtar tölur yfir fjölda stöðugilda á síðasta ári.
Þrettán ráðuneytisstjórar voru lengst af í Stjórnarráðinu, en þeim fækkaði samhliða fækkun ráðuneyta eftir hrun í átta ráðuneytisstjóra. Þó ráðherrum hafi síðan fjölgað hefur fjöldi ráðuneyta og þar með ráðuneytisstjóra haldist í átta.
Skrifstofustjórum í Stjórnarráðinu fækkaði um þrjátíu milli áranna 2010 og 2015, fóru úr 77 talsins í 47.