Maður er nefndur Sergey Kislyak og á honum standa nú öll spjót. Hann er óumdeilanlega sá rússneski embættismaður sem náð hefur að mynda sterkustu tengslin við stjórnmálamenn í Bandaríkjunum og eins og ótrúlegt og það hljómar - í ljósi kaldra samskipta þessara risa í austri og vestri í gegnum tíðina - þá liggja þræðir hans inn í Repúblikanaflokkinn.
Eins og kunnugt er þá hafa bandarískar stofnanir, leyniþjónustan CIA, alríkislögreglan FBI og þingnefnd í Bandaríkjunum, samskipti framboðs Donalds Trumps við Rússa nú til skoðunar.
Flest þessi samskipti liggja í gegnum fyrrnefndan Kislyak. Michael Flynn, fyrrverandi aðalráðgjafi Trumps á sviði öryggis- og varnarmála, hefur þegar sagt af sér eftir að hlerað símtal hans við Kislyak sýndi óumdeilanlega að hann hafði rætt viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum í símtalinu. Varforsetinn Mike Pence var ósáttur við þetta og fór Donald Trump í kjölfarið fram á afsögn hans.
Nú er það dómsmálaráðherra, Jeff Sessions frá Alabama, sem er undir smásjánni. Einkum tveir persónulegir fundir hans með Kislyak, í júlí og september í fyrra.
Samhliða þessum samskiptum voru tölvuárásir viðstöðulausar á framboð Hillary Clinton.
Trump hefur gert lítið úr þessum samskiptum og talar um nornaveiðar. Rannsókn á þó eftir að fara fram sem leiðir sannleikann í ljós.
Kislyak er 66 ára gamall og hefur verið sendiherra Rússa í Washington frá því árið 2008 og var það Medvedev sem skipaði hann. Hann er náinn bandamaður Vladímirs Pútíns, forseta, og er sagður hafa trúnað hans í öllum málum. Fáir hafa slíka stöðu utan Rússlands.
Hann var lykilmaður í stjórnkerfi gömlu Sovétríkjanna, og var meðal annars með yfirmannsstöðu gagnvart alþjóðastofnunum. Hann þykir hafa sterka nærveru og sannfæringarkraft. Er mikill á velli og talar hægt og með djúpri röddu. Í ræðu sem hann hélt í Stanford háskóla, skömmu eftir kosningasigur Donalds Trumps, 8. nóvember, fullyrti hann að hann hefði ekki verið í samskiptum við liðsmenn Trumps og að Rússar hefðu ekki blandað sér í kosningarnar með neinum hætti.
Helsti styrkileiki hans, samkvæmt skrifum Steven Lee Myers í bókinni New Tsar, þar sem Pútín er til umfjöllunar, er að hann þykir snjall í að greina stóru myndina í atburðum og er afburða snjall með tölur. Þannig reiðir hann sig ekki á ráðgjafa þegar kemur að ýmsum smáatriðum, heldur vinnur vinnuna yfirleitt sjálfur. Hann er eðlisfræðingur að mennt, með áherslu á kjarnorku.
Hann starfaði um árabil sem njósnari fyrir Sovétríkin og er sagður vera með alla þræði í hendi sér þegar kemur að því að skipa nýja njósnara, að því er fram kemur í New Tsar.
Foreldrar hans voru fæddir í gömlu Úkraínu og er hann sagður vera einn af þeim sem sér það í hyllingum, að Rússland innlimi Úkraínu aftur sem hluta af Sovétríkjunum.