Jón Ásgeir Jóhannesson er kominn með prókúru í félaginu Apogee ehf. Á heimasíðu Fjölmiðlanefndar er félagið sagt vera í eigu félaga á vegum Ingibjargar Pálmadóttur, eiginkonu hans. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi er eigandi Apogee er Moon Capital S.a.r.l., félags skráð í Lúxemborg, sem er líka stærsti einstaki eigandi A-hluta í 365 miðlum með 51,8 prósent eignarhlut. Apogee á síðan allt B-hlutafé í 365 miðlum, sem er stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins.
Þessi breyting varð á stjórnarfundi Apogee 21. febrúar síðastliðinn, samkvæmt breyttri skráningu sem hægt er að nálgast í gagnagrunni Creditinfo.
Jón Ásgeir, sem er fyrrverandi aðaleigandi 365 miðla, hefur ekki haft formlega stöðu innan fyrirtækisins um árabil. Viðmælendur Kjarnans sem starfa innan þess segja hins vegar að hann stýri öllu því sem hann vill stýra í daglegum rekstri 365 miðla og sé með mikla viðveru á skrifstofum fyrirtækisins.
Hann er einn þeirrra sem er ákærður í Aurum-málinusvokallaða sem tekið var aftur fyrir í héraðsdómi í lok síðasta árs. Þar var Jón Ásgeir sýknaður ásamt Bjarna Jóhannessyni, fyrrverandi viðskiptastjóra hjá Glitni, en Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Magnús Arnar Ásgrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, sakfelldir. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar að undanskildu máli Bjarna, og er því ekki lokið.
Vilja ekki svara spurningum um Panamafélag
Í ágúst í fyrra var tilkynnt um að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone, ætlaði að kaupa ljósvaka- og fjarskiptahluta 365 miðla. Upphaflega stóð til að greiða samtals um átta milljarða króna fyrir eignirnar með reiðufé, útgáfu hlutabréfa í Fjarskiptum og yfirtöku vaxtaberandi skulda 365 miðla. Kaupin hafa dregist mjög á langinn og í desember var tilkynnt að verðmiðinn hefði verið lækkaður um 1,2 milljarða króna. Í ársreikningi Fjarskipta, sem er skráð á markað, kom fram að vonir séu bundnar við að gerð kaupsamnings ljúki fyrir lok marsmánaðar. Verði af kaupunum verða félög í eigu Ingibjargar, m.a. Moon Capital S.a.r.l., stærsti einkafjárfestirinn í Fjarskiptum og gætu í krafti þess krafist stjórnarsætis, jafnvel stjórnarformennsku í félaginu. Sá einkafjárfestir sem nú er stærsti eigandi Fjarskipta, utan lífeyrissjóða og fjárfestingarsjóða, er félag í eigu Heiðars Guðjónssonar, stjórnarformanns félagsins.
Í Panamaskjölunum kom fram að félag í eigu Ingibjargar Pálmadóttur hafi fjármagnað fjöldamörg verkefni í Bretlandi og á Íslandi eftir hrun. Jón Ásgeir var skráður með prókúru í félaginu, sem heitir Guru Invest, og tengist mörgum verkefnanna sem það hefur fjármagnað.
Kjarninn sendi fyrirspurn til þeirra vegna umfjöllunar um Guru Invest og umsvif þess. Á meðal þeirra svara sem óskað var eftir voru upplýsingar um hvaðan þeir fjármunir sem vistaðir eru í Guru Invest í Panama hafi komið, hverjar eignir félagsins eru og hvort að fé úr Guru Invest hafi runnið til félaga eða einstaklinga á Íslandi. Þar var einnig spurt hvort eignir Guru Invest hafi verið á meðal þeirra eigna sem tilgreindar voru í umfangsmiklum skuldauppgjörum þeirra við kröfuhafa á Íslandi sem fram hafa farið á undanförnum árum og beðið um upplýsingar um hvar Guru Invest greiðir skatta og gjöld. Þá var einnig spurt af hverju félagið væri skráð með heimilisfesti á Panama.
Þau vildu ekki veita efnisleg svör.
Var eigandi árum saman
Það félag sem í dag heitir 365 miðlar hét einu Rauðsól. Það keypti alla fjölmiðla „gamla“ 365 í nóvember 2008 á 1,5 milljarð króna og með yfirtöku skulda. Gamla 365 ehf., sem var endurnefnt Íslensk afþreying ehf., fór í þrot og kröfuhafar þess töpuðu 3,7 milljörðum króna. Á meðal kröfuhafa þess voru íslenskir lífeyrissjóðir og ríkisbankinn Landsbanki Íslands. Eigandi Rauðsólar var upphaflega Jón Ásgeir Jóhannesson. Hann og tengdir aðilar höfðu líka átt stærstan eignarhlut í „gamla“ 365.
Þeir stjórnarmenn gamla 365 sem samþykktu kaupin samþykktu síðar að greiða sjóði í eigu Landsbanka Íslands óuppgefna upphæð fyrir að falla frá skaðabótamáli á hendur sér vegna þessa. Í málinu höfðu dómkvaddir matsmenn komist að þeirri niðurstöðu að gamla 365 ehf. hefði verið ógjaldfært á þeim tíma sem fjölmiðlarnir voru seldir til Rauðsólar og því hefði átt að gefa félagið upp til gjaldþrotaskipta samkvæmt lögum.
365 miðlar töpuðu 1,4 milljarði króna á árinu 2014 og ef það hefði fært skattaskuld sem það hefur þegar verið dæmt til að greiða í rekstrarreikning 2015 hefði tapið verið 350 milljónir króna það árið. 365 skuldaði tíu milljarða króna í lok árs 2015 og þær skuldir hafa farið hratt vaxandi, sérstaklega eftir að félagið var endurfjármagnað hjá Arion banka haustið 2015.