Valur Grettisson, sem verið hefur blaðamaður á Fréttatímanum, hefur tekið við ritstjórn The Reykjavik Grapevine. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook.
Þar segir Valur að stefnan sé að „gera skemmtilegt blað skemmtilegra. Grapevine hefur þann ómetanlega kost að geta skoðað íslenskt samfélag utan frá, og hefur verið skemmtilega gagnýnið í gegnum tíðina. Helsti styrkleiki blaðsins er þó tvímælalaust öflug menningarumfjöllun sem við viljum gera enn öflugri, enda bestra leiðin fyrir ferðamenn og aðra til þess að kynnast landi og þjóð. Ég óska vinum mínum á Fréttatímanum góðs gengis, enda frábært blað með stórkostlega snjallri ritstjórn.“
Helga Þórey Jónsdóttir var ráðin ritstjóri Grapevine í apríl í fyrra. Hún stoppaði hins vegar stutt við og Jón Trausti Sigurðarson hefur verið ritstjóri frá því í desember 2016. Helga Þórey tók við starfinu af Önnu Andersen og Hauki S. Magnússyni, sem hafði ritstýrt Grapevine um árabil.
The Reykjavík Grapevine er íslenskt blað og vefur á ensku og er markhópur blaðsins ferðamenn og nýir Íslendingar. Blaðið hefur komið út frá árinu 2003.